Skoðun

Kynslóðasátt - Leiðréttingarsjóður verðtryggðra húsnæðislána

Guðmundur Franklín Jónsson skrifar
Stjórnmálahreyfingin Hægri grænir, flokkur fólksins vill fara bandarísku leiðina til þess að leiðrétta verðtryggð lán heimilanna. Markmiðið með þessum aðgerðum er að fara að lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti sem tóku gildi 1. nóvember 2007. Með þeim var innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins um markaði fyrir fjármálagerninga. Bandaríska leiðin kallast „The Troubled Asset Relief Program" (TARP). Bandaríski TARP sjóðurinn var magnbundin íhlutun (e. quantitative easing) Seðlabanka Bandaríkjanna sem notuð var til þess að bjarga bandaríska húsnæðislánakerfinu, leysa úr vanda undirmálshúsnæðislána á fjármálamarkaði, og kaupa til baka yfirveðsett húsnæðislán einstaklinga af fjármálafyrirtækjum.

3. október 2008 var TARP leiðin samþykkt með sérstökum neyðarlögum Bandaríkjaþings. Þessi leið var sett saman af færustu hagfræðingum og sérfræðingum heims. Þessi leið bjargaði m.a. bandarísku húsnæðislánasjóðunum „Fannie Mae og Freddie Mac", bönkum og lífeyrissjóðum, sem fengu reiðufé í staðinn fyrir húsnæðislánin. TARP leiðin lukkaðist einstaklega vel og leysti þennan gríðarlega vanda sem skapaðist eftir fall „Lehman Brothers" og lítur nú út fyrir að bandaríski seðlabankinn hagnist verulega á þessum aðgerðum eftir allt saman. Eftir þessar aðgerðir komst fjármálastöðugleiki á, kreppan leystist, heimilum og fyrirtækjum var bjargað og í dag er ástandið í Bandaríkjunum mun betra en í Evrópu. Fasteignaverð í Bandaríkjunum hefur hækkað síðastliðið hálfa árið samhliða því sem nýbyggingum hefur fjölgað.

Meirihluti íslenskra heimila er í vandræðum með afborganir af stökkbreyttum verðtryggðum húsnæðislánum og eru þau ekkert annað en undirmálslán. Öll verðtryggð húsnæðislán tekin eftir 1. nóv. 2007 eru afleiður og því líklega ólögleg. Með nýjum verðbréfaviðskiptalögum breyttust ýmsar mikilvægar reglur sem lutu að því hvernig standa átti að viðskiptum með verðbréf. MiFID-tilskipunin náði til allra ríkja á EES svæðinu. Markmið laganna var að setja samræmdar reglur um neytendavernd fjárfesta og skapa sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónustu. Lögð var áhersla á aukið eftirlit, faglega framkvæmd og upplýsingagjöf. Þá var löggjöfinni ætlað að tryggja að þeir viðskiptavinir fjármálafyrirtækja, sem eiga í verðbréfaviðskiptum, fengju ávallt viðeigandi upplýsingar og ráðgjöf.

Samkvæmt MiFID reglunum bar fjármálafyrirtækjum að skipta viðskiptavinum sínum í þrjá meginflokka: 1) viðurkennda gagnaðila, 2) fagfjárfesta og 3) almenna fjárfesta. Síðastnefndi flokkurinn um almenna fjárfesta nýtur mestrar verndar, sem m.a. felst í því að þeim er óheimilt að taka þátt í flóknum fjármálagjörningum á borð við verðtryggð húsnæðislán þ.e. afleiðuviðskipti. Tilskipunin leggur bann við ósanngjörnum skilmálum í neytendasamningum, sem stríða gegn góðum viðskiptaháttum og raska til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytendum í óhag.

Verðtryggð húsnæðislán eru í rauninni svo flókin fjármálaafurð að jafnvel seljandi lánsins getur ekki gefið viðskiptavininum upp hvað skuldin stendur í eftir eitt ár, hvað þá 30 ár. Hækkun lánsins er afleiðing hækkandi neysluverðsvísitölu sem fjöldi afleiddra þátta verkar á, t.d. skattahækkanir, eldneytisverð, launakjör, hrávöruverð, hagstjórn, gengi krónunnar o.s.frv. Áhætta lánsins er að öllu leyti á lántakandanum en ekki seljandanum. Strangar reglur gilda um afleiðusamninga og fjármálafyrirtækjum er óheimilt að stofna til viðskipta með afleiður við almenning.

Öll verðtryggð húsnæðislán sem gefin hafa verið út fyrir 1. nóvember 2007, verður einnig að innkalla, leiðrétta og setja í sértækt eignarhaldsfélag (e. special purpose vehicle) vistað og fjármagnað af Seðlabanka Íslands sem flokkurinn vill kalla Afskriftasjóð verðtryggðra húsnæðislána. Hagsmunasamtök heimilanna segja að rúm 80% landsmanna séu hlynnt afnámi verðtryggingar samkvæmt Capacent könnun sem var gerð fyrir samtökin. Þrátt fyrir þetta standa stjórnvöld vörð um verðtrygginguna sem hefur lagst af fullum þunga á skuldsett heimili landsins, á meðan fjármagnseigendur eru varðir að fullu. Hagnaður bankanna er að miklu leyti vegna hækkunar verðtryggðra lána. Staðreyndin er sú að verðtryggð húsnæðislán til heimilanna hafa hækkað um meira en 40% frá 1. nóv. 2007 á meðan það eru eingöngu vextir og engin verðtrygging á húsnæðislánum annars staðar í heiminum.

Setja verður sérstök neyðarlög fyrir heimilin og innkalla öll verðtryggð húsnæðislán og skuldbreyta þeim. Þessi kynslóðasátt veitir sanngjarna leiðréttingu á verðtryggðum húnæðislánum almennings og verður vísitalan færð niður á þessum lánum í 278,1 stig sem var vísitala neysluverðs til verðtryggingar 1. nóvember 2007. Öll önnur verðtryggð húsnæðislán sem tekin eru eftir 1. nóvember 2007, verða færð til þess vísitölustigs neysluverðs til verðtryggingar til þess dags sem þau voru tekin á. Eftir að öll verðtryggð húsnæðislán verða innkölluð og leiðrétt, verður lántökum boðið upp á óverðtryggð húsnæðislán til lengri tíma, í staðinn fyrir þau verðtryggðu. Í Bandaríkjunum bjóða fjármálafyrirtæki nú þegar upp á 50 til 100 ára húsnæðislán. Frá 1995 í Japan og Evrópu hafa húseigendur getað fengið 50 til 100 ára húsnæðislán. Má segja að það komist á virkur eignaleigumarkaður með lengri lánunum, sem hefur sárlega vantað á Íslandi. Hægt er að fara milliveginn í þessum efnum og bjóða lengstu óverðtryggðu húsnæðislánin til 75 ára, sem gætu verið í boði hjá fyrirhuguðum Afskriftasjóði verðtryggðra húsnæðislána.




Skoðun

Sjá meira


×