Skoðun

Verkefnið skuldastaða heimilanna

Jón Lárusson skrifar
Við stöndum einungis frammi fyrir verkefnum og þau er annaðhvort hægt að leysa eða ekki. Vandamál er því ekki til, nema verkefnið sé óleysanlegt og hafi áhrif á aðra þætti í kringum okkur.

Þessi einfalda staðreynd er ástæða þess að ég forðast að ræða skuldavanda heimilanna og horfi frekar til verkefnisins, skuldastaða heimilanna. Það er nefnilega lítið mál að leysa þetta verkefni. Það eina sem hefur komið í veg fyrir það, er viljaleysi þeirra sem eiga að vinna verkið.

Hvaðan koma peningarnir

Það er eitt sem almenningur verður að átta sig á, en það er staðreyndin um peningaframleiðsluna. Fæstir gera sér grein fyrir því að það er ekki ríkið sem býr til megnið af því fjármagni sem er í notkun, heldur eru það bankar sem búa það til með vaxtaberandi skuldsetningu.

Í hvert sinn sem tekið er lán, þá er búinn til peningur sem samsvarar lánsupphæðinni. Þessi peningur er búinn til úr engu, bankanum að kostnaðarlausu. Þegar svo lánið er greitt til baka, þá eyðileggur bankinn peninginn. Peningaframleiðsla er nefnilega ekki flókin og kostar ekkert.

Staðreyndin er nefnilega sú að peningar fæðast með skuldsetningu og deyja við greiðslu, en valdið yfir lífi og dauða er í höndum hins almáttuga bankakerfis. Þetta er einfaldlega spurningin um debet og kredit.

Lausnin er einföld

Ef við gefum okkur að meðalskuld á einstakling sé um 10 milljónir, þá er um að ræða 20 milljónir á sambýlisfólk. Ríkið á að búa til þetta fjármagn án skuldsetningar og vaxta.

Sérhver einstaklingur fær þessa upphæð, en hún er skilyrt þannig að hún gangi fyrst upp í greiðslu á skuldum. Það sem gerist er að fjármagnið fer aldrei út í hagkerfið, heldur er eyðilagt við greiðslu lánanna. Þetta hefur engin áhrif á fjármagn í umferð og á því ekki að hafa áhrif á verðbólguna. Þetta eykur hins vegar kaupmátt almennings og þannig fara hjól efnahagslífsins af stað.

Ef einstaklingur er með minni skuldsetningu en 10 milljónir, þá er honum frjálst að nota umframfjármagn til hvers sem hann vill.

Sumir koma til með að kaupa sér eitthvað og þá fer fjármagnið í atvinnulífið sem getur létt á skuldum sínum og þannig hverfur það fjármagn úr umferð. Fjármagnið mun líka vera notað til fjármögnunar á rekstri sem mun styrkja fjárhagsstöðu fyrirtækja þannig að þau geti aukið framleiðslu og bætt rekstrargrundvöll sinn. Slíkt mun aðeins styrkja samfélagið til langframa.

Til að tryggja að umframfjármagn valdi ekki þenslu, þá verður það tekið úr umferð með reglulegum hætti í gegnum skattlagningu næstu fimm árin. Einnig verður að horfa til þess að einstaklingar sem hafa fengið afskrifuð persónuleg lán sín eða fyrirtækja tengdra þeim munu ekki fá greiðslur, hafi afskriftirnar verið umfram 10 milljónir.

Krafa um aðgerðir

Skuldastaða heimilanna er ekki vandamál, heldur verkefni sem þarf að leysa. Það er kominn tími til þess að almenningur fái leiðréttingu þess óréttlætis sem hann hefur þurft að þola. Það er kominn tími til að almenningur hætti að skrimta og fái tækifæri til að lifa.




Skoðun

Sjá meira


×