Erlent

Saka Apple um samkeppnisbrot

Steve Jobs, fyrrverandi forstjóri Apple, beitti sér fyrir því að taka upp nýtt fyrirkomulag til að ákveða verð á rafbókum.
Steve Jobs, fyrrverandi forstjóri Apple, beitti sér fyrir því að taka upp nýtt fyrirkomulag til að ákveða verð á rafbókum. Fréttablaðið/AP
Bandarísk samkeppnisyfirvöld hafa höfðað mál á hendur tæknirisanum Apple fyrir meint samkeppnisbrot við verðlagningu á rafbókum í vefverslun fyrirtækisins.

Apple er sakað um að hafa komið á samráði meðal útgefenda til að samræma verð á rafbókum og takmarka með því samkeppni á rafbókamarkaði.

Verðlagning á rafbókum í vefverslun Apple stjórnast af öðrum lögmálum en verð á bókum í bókabúðum. Bókaútgefendurnir ákveða sjálfir verðið í vefverslun Apple, og fyrirtækið fær 30 prósenta hlut af útsöluverðinu.

Í hefðbundnum bókabúðum selja útgefendur bækurnar fyrir fast verð og það kemur í hlut bókabúðarinnar að ákveða hversu mikið er lagt á heildsöluverðið, og þar með hvert útsöluverðið er.

Verðlagning á rafbókum var fyrst um sinn eins og í venjulegum bókabúðum, en Steve Jobs, fyrrverandi forstjóri Apple sem féll frá í fyrra, beitti sér fyrir því að taka upp nýtt kerfi.

Apple hafði ekki brugðist við fréttum af lögsókninni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×