Skoðun

Opið bréf frá Falun Gong iðkendum

Þórdís Hauksdóttir og Peder Giertsen skrifar
Falun Gong iðkendur styðja af heilum hug þingsályktun Guðmundar Steingrímssonar og tíu annarra þingmanna Alþingis sem miðar að formlegri leiðréttingu á þeim óheppilegu aðgerðum sem beindust gegn Falun Gong iðkendum í tengslum við opinbera heimsókn þáverandi leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína til Íslands í júní 2002.

Í maí síðastliðnum bárust þær góðu fréttir að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar beðið Falun Gong iðkendur sem mættu óréttlátri meðferð á Íslandi á þessum tíma afsökunar úr ræðustól Alþingis.

Falun Gong iðkendur líta á þingsályktunartillöguna sem nú liggur fyrir Alþingi sem dýrmætt tækifæri fyrir Ísland að leiðrétta enn frekar þær óréttlátu og ólöglegu aðgerðir sem Falun Gong iðkendur voru beittir hérlendis og á flugvöllum víða um heim.

Meirihluti íslensku þjóðarinnar var ósáttur við þá atburði og margir reiðir og hneykslaðir á banninu. Þúsundir Íslendinga gengu um götur til stuðnings þeim rétti Falun Gong iðkenda að minna á mannréttindabrot kínverskra yfirvalda.

Alþjóðasamfélagið var ekki síður slegið vegna framgöngu íslenskra stjórnvalda samanber fyrirsögn bandarísks dagblaðs, „Iceland kowtows to China" og spurningu bandarísks þingmanns með áherslu á hvert orð „Did Iceland really do that?".

Því miður hafa ofsóknirnar á hendur Falun Gong iðkendum í Kína haldið áfram og hugur okkar er með þeim sem nú þola auknar pyntingar vegna nýrrar margmilljarða herferðar kínverska kommúnistaflokksins á hendur Falun Gong sem lesa má um í trúnaðarskjölum flokksins, sum þeirra aðgengileg á netinu.

Ofsóknirnar á hendur Falun Gong iðkendum hafa kallað á viðbrögð alþjóðasamfélagsins og ítrekað verið fordæmdar af Sameinuðu þjóðunum, þingmönnum og ráðherrum fjölda landa, mannréttindastofnunum og fleirum. Bæði fulltrúaþing Bandaríkjanna og Öldungadeild hafa nokkrum sinnum ályktað gegn ofsóknunum.

Á árinu 2009 gaf argentínskur dómari út handtökuskipun á hendur Jiang Zemin (og öðrum háttsettum embættismönnum í Kína eins og Luo Gan) fyrir glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð á Falun Gong iðkendum í Kína, í kjölfar fjögurra ára rannsóknar.

Yfirlýsingar, dómar og ályktanir sem styðja mannréttindi á heimsvísu hafa gríðarlegt gildi fyrir þá sem þurfa að þola ómannúðlegar ofsóknir og pyntingar – sem og alla sem láta sig þau brot varða.

Á Íslandi er löng hefð fyrir lýðræði og mannréttindum. Við trúum að það sé af hinu góða fyrir þjóðina og framtíð hennar að hvika ekki frá þeim grunngildum arfleifðar sinnar og halda á lofti virðingu fyrir réttlæti á heimsvísu.

Stuðningur við þingsályktunina er afstaða í samhljómi við rödd þjóðarinnar, í samræmi við úrskurð umboðsmanns Alþingis og Persónuverndar og í anda grundvallarsiðferðisviðmiða og réttlætis. Sá stuðningur er sömuleiðis mikilvægur öllum Falun Gong iðkendum sem hlutu illa meðferð og voru sviptir réttindum sínum af hálfu stjórnvalda á þessum tíma, einkum þeim rétti að vekja athygli á óréttlæti og mannréttindabrotum.

Undirrituð, sem hafa leitað eftir samræðu við íslensk stjórnvöld á vegum Falun Gong Iceland Dialogue Committee, hvetja þingmenn Alþingis til að samþykkja þingsályktunartillöguna og með því leiðrétta þau brot sem framin voru, til góðs fyrir bæði Falun Gong iðkendur og Ísland.




Skoðun

Sjá meira


×