Skoðun

Er sem sagt, sko?

Jón Axel Egilsson skrifar
Æskuvinir mínir voru skrítinn hópur og aldursmunur þess yngsta og elsta hátt í fjögur ár. Þegar einn þeirra elstu komst inn í MR og sagði okkur frá upphefðinni orðaði hann það svona: „Nú er ég kominn í menntaskóla, hættur að segja mér hlakkar til en segi mig hlakkar til.“ Þegar þetta féll í grýttan farveg hjá hópnum bætti hann við: „Maður á nefnilega að segja ég hlakka til.“ Þetta er ein besta kennslustund í íslensku sem ég hlaut um ævina.

Á þessum árum vorum við rétt vaxnir upp úr því að fara í þrjúbíó en talsmátinn bar þess merki því talað var með miklu handapati og áhrifshljóðum. Þessi sami vinur hlustaði og bað okkur svo að endurtaka frásögnina, vanalega með orðinu „Hvernig?“ Þegar hann hafði spurt nokkrum sinnum og fengið frásögnina endurtekna í hvert skipti, fór að draga úr handapatinu og áhrifshljóðunum.

Eitthvert sinn í glöðum hópi tók hann upp á því að herma eftir okkur. Náði öllum stælunum og orðræðunni hjá hverjum og einum og við hlógum okkur máttlausa á kostnað hver annars. Þegar kom að mér gerðist hann alvarlegur og fór að útskýra „…, sko…, þannig getur maður nefnilega…, sko…“ Þarf ég að geta þess að ég hef ekki notað það orð í hálfa öld?

Hvað er sem sagt?Ég vandist því í uppvextinum að menn segðu frá eða útskýrðu eitthvað, tóku síðan mál sitt saman að lokum og sögðu: „…sem sagt, þannig var farið að því.“

Í dag notar annar hver maður sem sagt/sem sé í tíma og ótíma án þess að það þjóni nokkrum öðrum tilgangi en sem hikorð eins og sko eða hérna. Fréttamenn eru engin undantekning hvað þetta varðar og bæta sumir um betur með þeim hvimleiða framburði að hafa áherslur á einstök orð innan setningar: „Bankinn Hagnaðist þannig á Kostnað…“ Í síðasta þætti Silfursins notuðu svo til allir viðmælendur og þáttarstjórnandi sem sagt/sem sé eins og þeir fengju borgað fyrir það og Djöflaeyjan er litlu betri.

Þegar kemur að þýðendum norrænna spennusagna kastar fyrst tólfunum. Í síðustu bókinni um Wallander taldi ég í fyrstu að sem sagt væri málvenja hans, en þegar annar hver maður talaði þannig og einnig sögumaðurinn vona ég að hér hafi þýðandinn verið að verki. Þýðanda bóka Lizu Marklund um Anniku Bengtzon er sem sagt svo tamt á tungu að það kemur jafnvel tvisvar fyrir í sömu efnisgreininni sem dregur annars ágæta þýðingu niður á lægra plan. Ég hef ekki séð frumtextann en bágt á ég með að trúa að metsöluhöfundar riti þannig. Verið er að framleiða sjónvarpskvikmyndir eftir fyrstu sex skáldsögum Lizu um Anniku (en hún er að rita þá níundu) og gefst þá tækifæri til að hlusta.

Þeir sem vinna við skriftir ættu að kynna sér leiðréttingarforrit. Þau virka vel gegn stafavíxlun og hægt er að láta þau lýsa upp (gul yfirstrikun) ákveðin orðasambönd þannig að nokkuð margir gulir blettir verða á síðunni sé það endurtekið nógu oft – eins og maður hafi pissað á sig.




Skoðun

Sjá meira


×