Erlent

Lítil von talin á vopnahléi í dag

Sýrlenskur flóttamaður liggur særður á sjúkrahúsi, eftir að hafa orðið fyrir árás sýrlenska stjórnarhersins á flóttamannabúðir í Tyrklandi í gær.Mynd/AP
Sýrlenskur flóttamaður liggur særður á sjúkrahúsi, eftir að hafa orðið fyrir árás sýrlenska stjórnarhersins á flóttamannabúðir í Tyrklandi í gær.Mynd/AP
Gærdagurinn var einn sá blóðugasti í langan tíma í Sýrlandi, þrátt fyrir að stefnt hafi verið að því að vopnahlé hæfist þar í dag. Aðgerðasinnar segja að í það minnsta 100 manns hafi látið þar lífið í gær.

Í það minnsta sex manns létu lífið í skotárásum sýrlenskra stjórnarhersins á uppreisnarmenn í flóttamannabúðum innan tyrknesku landamæranna. Árásirnar vöktu mikla reiði í Tyrklandi, en þetta er í fyrsta sinn sem beinar árásir hafa verið gerðar á tyrkneskar flóttamannabúðir, frá því að Tyrkir hófu að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi. Þúsundir manna, sem flúðu heimili sín, hafast nú við í flóttamannabúðum í Tyrklandi.

Í gær var líbanskur myndatökumaður sjónvarpsstöðvarinnar Al Jadeed jafnframt skotinn á landamærum Sýrlands og Líbanon.

Samkvæmt friðaráætlun Kofi Annan, sérlegs sendifulltrúa Arababandalagsins og Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, á vopnahlé að hefjast í landinu í dag. Litlar líkur eru taldar á að það muni ganga eftir.

Áætlað er að Kofi Annan heimsæki flóttamannabúðir í Hatay-héraði, við landamæri Sýrlands, seinni partinn í dag.

Sameinuðu þjóðirnar telja að um 9.000 manns hafi látist í Sýrlandi frá því að uppreisnin hófst í mars 2011. - hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×