Skoðun

Nýliðun fyrir hvern?

Þórhallur Hjaltason skrifar
Nú hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur komið með enn eitt sjávarútvegsfrumvarpið sem á að leysa allan ágreining um sjávarútvegskerfið. Nú á að ná sáttum við þjóðina – reyndar aðra hluta þjóðarinnar en sjómenn og fiskverkafólk, sem höfum þó af þessarri atvinnugrein lifibrauð. Einn af helstu útgangspunktum ríkisstjórnarinnar er að auka „nýliðun“ í kerfinu með stórauknum ríkispottum sem stjórnmálamenn deila eftir eigin reglum og hagsmunum heima í héraði.

Þegar stjórnmálamenn tala um nýliðun í greininni sjá þeir fyrir sér syngjandi trillusjómenn haldandi til veiða. Þessi rómantíska sýn á sjávarútveg er eins og að sjá fyrir sér sveitir landsins fullar af fólki – bændur að heyja með ljá og Bjössi á mjólkurbílnum keyrir um á gömlum Ford T, sækir mjólkurbrúsana heim í hlað og flautar í áttina að heimasætunum. En allir vita að þannig er ekki íslenskur landbúnaður í dag og engum dytti í hug að koma með frumvarp þess efnis að hverfa aftur til þess tíma.

Í mínum huga er nýliðun í sjávarútvegi að ungir menn geti farið og menntað sig í vélstjórn eða skipstjórn, komið heim aftur og haft öruggar og góðar tekjur af því að vinna í öruggu starfsumhverfi. Ég þekki þó nokkuð af mönnum sem skuldsettu sig til að kaupa trillu á 7 – 10 milljónir og treysta á að geta veitt frítt í boði ríkisins annaðhvort á strandveiðum eða byggðakvóta. Útgerð þessarra einstaklinga hefur gengið mjög illa og það sem hefur bjargað afkomu þessarra manna og heimila þeirra eru afleysingar á togurum og nótaskipum hér í Fjarðabyggð. Er þetta nýliðun byggð á öruggri afkomu í öruggu starfsumhverfi? Hins vegar vegnar þeim ágætlega sem fyrir áttu trillurnar, skuldlausar, með nokkra tugi milljóna inni á bók eftir kvótasölu. Þessir einstaklingar halda nú frítt til veiða í boði ríkisstjórnarinnar og mér segir svo hugur að þeir muni uppfylla rómantíska sýn Jóhönnu og Steingríms um syngjandi trillukarlana. Og hver veit, kannski ná þeir að selja sig síðan í annað eða þriðja skiptið út úr kerfinu.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×