Skoðun

Aðgengi óskast

Sigríður Hafdís Runólfsdóttir skrifar
Fötlun setur vissulega mörgum skorður við að sinna sjálfsögðum þáttum daglegs lífs, svo sem við að sinna atvinnu, námi og félagslífi. Á árum áður var algengara að fatlað fólk byggi við vissa einangrun vegna sinnar fötlunar, sem stafaði oft af hindrunum í samfélaginu og erfiðleikum við að komast á milli staða. Umhverfið gerði hreinlega ekki ráð fyrir fötluðu fólki.

Ein af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk er að fatlað fólk geti tekið fullan þátt í samfélaginu án aðgreiningar. Í níundu grein samningsins segir að leitast skuli við að tryggja fötluðu fólki aðgang að hinu efnislega umhverfi, samgöngum, upplýsingum, samskiptum, aðstöðu og þjónustu sem almenningi er látin í té. Gera skuli ráðstafanir sem meðal annars felast í því að ryðja úr vegi hindrunum sem hefta aðgengi í hinu manngerða umhverfi.

Ný byggingarreglugerð sem undirrituð var fyrir skemmstu byggir á lögum um mannvirki sem samþykkt voru í lok árs 2010. Eitt af markmiðum reglugerðarinnar og laganna er að tryggja aðgengi fyrir alla. Í því felst að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun á mannvirkjum á grundvelli fötlunar, skerðingar eða veikinda. Um leið er gert ráð fyrir að fatlað fólk geti komist inn og út úr mannvirkjum á öruggan hátt, líka þegar hætta steðjar að svo sem við bruna.

Algild hönnun er hugtak sem lýsir þeirri hugmyndafræði að hið manngerða umhverfi, þjónusta, áætlanir og framleiðsluvörur séu þannig gerð að hún henti öllum, án þess þó að útiloka hjálpartæki fyrir fatlað fólk sé þeirra þörf. Samkvæmt byggingarreglugerðinni skal ávallt leitast við að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar.

Gott aðgengi kemur sér vel fyrir alla og er ein af lykilforsendum þess að allir geti tekið virkan þátt í samfélaginu, hvort sem um er að ræða fatlað fólk, ófatlað, fólk með barnavagna, þungaðar konur eða eldri borgara. Öll getum við lent í því einhvern tímann yfir ævina að hlutir sem áður þóttu sjálfsagðir reynast okkur meiri hindrun en áður.

Gera má ráð fyrir því að um 10% Íslendinga á aldrinum 18-66 ára búi við einhvers konar fatlanir eða um 31 þúsund manns. Við það bætist að margir eldri borgarar búa við ýmsar hamlanir þrátt fyrir góða heilsu og fer sá hópur sístækkandi. Það er því mikilvægt að að huga að aðgengi fyrir ólíka hópa þegar kemur að byggingu nýrra mannvirkja. Nýja byggingarreglugerðin tekur sérstakt tillit til ólíkra hópa með mismunandi þarfir fyrir aðgengi. Bætt aðgengi að mannvirkjum gerir það að verkum að líkamlegt ásigkomulag muni síður setja hömlur á daglegt líf og búsetu fólks.

Nýrri byggingarreglugerð ber að fagna þar sem hún boðar bætt aðgengi fyrir alla og verður það seint ofmetið.




Skoðun

Sjá meira


×