Skoðun

Fíklar hér og þar

Stefán J. Arngrímsson skrifar
Ég á mér draum sem er líklega svipaður og hjá tugþúsundum Íslendinga hvar sem þeir eru staddir á lífsleiðinni. Ég á mér markmið sem svipar til annarra markmiða samlanda minna, hvort sem þeir eru staddir hér á landi eða í Evrópu, Bandaríkjunum eða þess vegna Kína. Ég legg á mig mikla vinnu og tíma til að ná þessum markmiðum. Ég læri á kvöldin eftir vinnu, les mér til og æfi mig reglulega.

Ég verð oft af dýrmætum tíma með fjölskyldu minni enda er mín íþrótt tímafrek sem krefst oft fjarveru. Ég þekki til fjölda fólks sem er í svipuðum aðstæðum, enda leggur það mikið á sig til að ná árangri, þetta fólk, þessir Íslendingar, eru ekkert endilega að stunda sömu íþrótt og ég.

Við vitum öll að margt afreksfólk keppir upp á peninga. Margir hafa sína atvinnu af því að keppa og í raun skiptir ekki máli hvar maður lítur niður í þjóðfélaginu, peningar eru kannski ekki aðaldriffjöðurin en án þeirra væri landslagið í mörgum greinum allt annað. Ég viðurkenni það að ég keppi upp á peninga. Verðlaunafé gerir mér kleift að stunda mína íþrótt og verða betri í því sem ég geri. Ég vinn ekki alltaf, ég viðurkenni það líka að ég þoli ekki að tapa. Ég þekki ekki nokkra manneskju sem vill ekki ná árangri í sinni íþrótt. Ef svo er þá er sú manneskja væntanlega ekki á réttri hillu í lífinu. Ég þarf að borga þátttökugjald í minni íþrótt til að taka þátt, og hef lúmskan grun um að það sé þannig í mjög mörgum íþróttagreinum. Þannig er það í minni grein og þeir sem komast í verðlaunasæti fá greitt af þessu þátttökugjaldi að frádregnum kostnaði mótshaldara.

Ég hef val um hveru mikinn kostnað ég ber af minni íþrótt, ég get eytt mjög litlu, t.d. eins miklu og pulsu, kók og prins póló eða sem samsvarar bíla- húsnæðis- og símastyrk ráðherra í eitt mót. Ég hef einnig það val að keppa á erlendum netsíðum, erlendum keppnisstöðum eða einhvers staðar hér innanlands. Það er mitt val eins og það er val Íslendinga sem spila golf að spila uppi í Grafarvogi eða Orlando hvort sem það er til ánægju, æfinga eða keppni.

Ég gæti sagt að eitthvert golfáhugafólk væri fíklar, hestafólk eða veiðimenn eru mögulegir á þennan lista líka. Ég sé engan tilgang í því þótt veiðileyfi geti t.d. kostað fleiri hundruð þúsund og ekkert veiðist eða einn hestur sem kostar fleiri milljónir og skilar svo ekki sínu. Mér finnst það vera mikil áhætta að borga veiðileyfi og eiga það á hættu að fá ekki neitt. Mjög mörgum finnst það einnig vera áhætta að borga þátttökugjald í keppni í spilum og skil ég það mjög vel. Alveg eins og ég skil að Íslendingar vilji veiða í bestu ám landsins, þó ég geri það ekki.

Mér finnst það mjög leitt ef fólk misstígur sig á lífsleiðinni. Ég hef gert það og veit að aðrir hafa gert það líka. En það að takmarka möguleika mína til að stunda mína íþrótt og möguleika mína til að ná árangri vegna áfalla örfárra annarra eru brot á mínum mannréttindum.

Póker er viðurkennd hugaríþrótt, alveg eins og skák eða bridds.




Skoðun

Sjá meira


×