Skoðun

Að eiga val

Finnur Sveinsson skrifar
Íslendingar eru bílaþjóð. Fjöldi bíla á hvern íbúa er með því mesta sem gerist í Evrópu, það er næstum því einn bíll á hvert bílpróf sem þýðir að flest heimili eru með 2-4 bíla. FÍB hefur reiknað út að meðalkostnaður við að eiga bíl sé yfir ein milljón á ári, séu afskriftir og fjármagnsgjöld tekin með í reikninginn. Það þýðir að kostnaður fyrir meðalstóra fjölskyldu eru a.m.k tvær til þrjár milljónir króna á ári einungis til að reka bílaflotann. Ennfremur kjósa Íslendingar að eiga stóra bíla og er því bílafloti Íslendinga mun orkufrekari en í flestum Evrópuríkjum.

Hvað þarf til að breyta þessu viðhorfi Íslendinga til einkabílsins? Það er ljóst að hægt er að nýta peninginn í margt skemmtilegra en að láta hann liggja í bíl sem er aðallega notaður til aksturs til og frá vinnu og í smátúra. Það þarf að skapa forsendur hérlendis fyrir fjölbreytt samgöngukerfi sem fólk getur nýtt sér, allt eftir þörfum hverju sinni.

Þjónustu með flýtibíla er að finna víða erlendis.

Flýtibíllinn gengur einfaldlega út á það að fólk geti leigt sér bíl allt frá einum klukkutíma og upp í nokkra daga. Bílarnir gætu verið staðsettir á sérstökum bílastæðum um bæinn, nálægt stærstu vinnustöðum, strætóstöðvum og verslunarkjörnum. Hægt væri að panta þá af netinu og huga að því að aðgangur sé þannig úr garði gerður að það þarf ekki sérstaka umsýslu með lykla. Að leigutíma loknum greiðir viðkomandi fyrir raunverulega notkun, þ.e. fyrir akstur og tíma. Þannig gefst fólki kostur á að nýta einkabílinn þegar það nauðsynlega þarf en aðra samgöngumáta þegar það getur. Fyrir þá sem eiga ekki bíl þá hefur fólk aðgang að bíl án þess að fara í þá fjárfestingu sem nýr bíll er.

Stærsti hluti daglegra ferða á höfuðborgarsvæðinu er innan við 10 km. Séu valmöguleikar fyrir hendi er hægt að skipuleggja þessar ferðir á marga vegu, eftir því sem er hagkvæmast hverju sinni. Það er hægt að hjóla, ganga eða taka strætó, taka leigubíl eða flýtibíl, allt eftir því hvað hentar hverju sinni.

Þegar valmöguleikar aukast í samgöngum er hægt velja um fleiri kosti en einkabílinn og skipuleggja þannig ferðir miðað við hagkvæmustu lausnina hverju sinni. Þannig getur heildarkostnaður orðið lægri en að eiga og reka bíl númer tvö og/eða þrjú.

Ef þú vilt kynna þér kosti flýtibíla kíktu þá við í Tjarnarbíó í dag kl. 15.00 en þar verður haldinn fundur um framtíð flýtibíla hérlendis.




Skoðun

Sjá meira


×