Skoðun

Lögmaðurinn sem hrópaði "kynferðisbrot“

Jón Trausti Reynisson skrifar
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður hefur undanfarin ár sérhæft sig í því að stefna fjölmiðlafólki. Á fimmtudag birti hann grein í Fréttablaðinu þar sem hann kvartaði undan því að DV fjallaði um tengsl Birkis Kristinssonar bankamanns og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, við meint efnahagsbrot sem eru til rannsóknar.

Í greininni skáldaði Vilhjálmur ímyndaða ásökun á undirritaðan um kynferðisbrot og bar það saman við umfjöllun DV um yfirheyrslur sérstaks saksóknara yfir Birki og Bjarna, sem birtust í DV með fyrirsögninni „Yfirheyrður". Sagt var frá því í DV að Birkir væri flæktur í meinta markaðsmisnotkun Glitnis. Að mati Vilhjálms er framsetning á umfjöllunum DV sambærileg við mögulega umfjöllun um undirritaðan með fyrirsögninni: „Yfirheyrðir. Ritstjórar DV flæktir í meint kynferðisbrotamál."

Erfitt er að ímynda sér hvernig menn „flækjast" í nauðgun eða annað kynferðisbrot án þess að fremja kynferðisbrot. Lögmaður ætti að vita vel að kynferðisleg misnotkun er allt annars eðlis en markaðsmisnotkun.

Birkir er yfirheyrður sem vitni af sérstökum saksóknara vegna þess að hann keypti 0,5% hlut í Glitni út á lán frá Glitni. Bankinn er grunaður um markaðsmisnotkun. Sterkur grunur er um stórfellda markaðsmisnotkun í íslensku bönkunum í góðærinu, með viðskiptum sem áttu sér stað með sambærilegum hætti, þar sem útlánum var breytt í eigið fé. Með þessum aðferðum var hægt að halda gengi hlutabréfanna hærra en tilefni var til. Hvernig lögmanni dettur í hug að bera þetta saman við kynferðisbrot er erfitt að skilja.

Það er vægt til orða tekið að þeir hafi „flækst" í þessi viðskipti, þar sem ekkert bendir til annars en að þeir hafi fullviljugir tekið þátt í viðskiptunum til hagsbóta fyrir sjálfa sig, annar sem starfsmaður Glitnis og hinn sem eigandi og stjórnarmaður fyrirtækja sem hjálpuðu Milestone að bjarga Glitni með viðskiptafléttu á reikning almennings. Viðskiptagjörningar Birkis og Bjarna tengjast sannarlega meintum efnahagsbrotum sem eru til rannsóknar.

Eitt af því undarlega við grein Vilhjálms, sem er gagnrýni á DV fyrir að tengja menn við lögbrot, er að í greininni sakar Vilhjálmur undirritaðan beinlínis um lögbrot: „Með forsíðufréttinni er því dróttað að æru Birkis sem er refsiverð og skaðabótaskyld háttsemi sem DV og ritstjórar blaðsins bera ábyrgð á að lögum," dróttar Vilhjálmur.

Annað furðulegt í grein Vilhjálms er sú fullyrðing hans að það sé „sérstakt rannsóknarefni að DV skuli finnast tíma sínum betur varið í réttarsölum á Lækjartorgi og við Arnarhól en að segja fréttir". Auðvitað er ósatt að okkur finnist tíma okkar vel varið í réttarsölum. Þangað hefur okkur hins vegar verið stefnt fyrir að segja fréttir. Vilhjálmur, sá sami og furðar sig á dómsmálunum, er gjarnan sá sem sækir málin gegn okkur. Hann hefur dregið DV eða blaðamenn DV átta sinnum fyrir dóm síðastliðið eitt og hálft ár, sem og bloggara og fólk sem skrifar ummæli við fréttir á vefnum.

Aðrar starfsstéttir búa ekki við þann veruleika að lítil mistök í starfi, eða mat dómara um að það sé saknæmt að segja frá einu eða öðru, leiði til harðra fjárhagslegra refsinga, jafnvel upp á milljónir króna þegar laun Vilhjálms eru talin með. Enginn blaðamaður vill eyða tíma og peningum í að verjast lögsóknum í réttarsal fyrir að skrifa fréttir, því það setur fjárhag hans í algert uppnám. Vilhjálmur, hins vegar, græðir þess meira eftir því sem hann nær að etja fleirum út í að lögsækja blaðamenn eða bloggara.

Grein Vilhjálms virðist snúast um að kynna þá möguleika og þá þjónustu sem hann hefur að bjóða fyrir þá sem eru til umfjöllunar í tengslum við efnahagsbrotamál í fjölmiðlum. Sjálfsagt er að Vilhjálmur auglýsi þjónustu sína, en líklega ætti hann að borga fyrir það eins og aðrir. Hann ætti að hafa efni á því: „Tek að mér að lögsækja þá sem segja fréttir af hvítflibbaglæpum."




Skoðun

Sjá meira


×