Skoðun

Kjarnakonu á Bessastaði

Ragnheiður Davíðsdóttir skrifar
Margir eru kallaðir sem álitlegir forsetaframbjóðendur. Í mínum huga er Auður Guðjónsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur afar vænlegur frambjóðandi í forsetakjöri. Hún er vel þekkt sem óþreytandi baráttukona í þágu lækninga við mænuskaða. Sem stofnandi Mænuskaðastofnunar Íslands hefur henni tekist að fá færustu sérfræðinga heims til að horfa út fyrir rammann. Nýlega átti Auður frumkvæði að því að Norðurlandaráð samþykkti að Norðurlöndin hefðu forgöngu um að hrinda af stokkunum skipulagðri leit að lækningu við mænuskaða. Það þarf ekki lítið þrek og hugsjón til að halda slíku til streitu og hafa í gegn.

Ef það er eitthvað eitt sem prýðir Auði öðru fremur, þá er það leiðtogahæfileikinn. Hún hefur einstakt lag á að koma málum áfram, hrífa fólk með sér með mælskunni og halda stefnunni. Forseti er þjóðarleiðtogi og Auður á svo sannarlega heima í slíku hlutverki.

Ef svona dugmikil og framsækin kona yrði kosin í þetta mikilvæga embætti gæti hún beint sjónum að mannúðarmálum, heilbrigðismálum og jafnréttismálum; málaflokkum sem eru henni afar hugleiknir og skipta þjóðina og allt mannkynið afar miklu máli. Þannig yrði hún forseti allrar þjóðarinnar.

Það er engin spurning að þessi dugmikla, heiðarlega og hláturmilda kona mundi njóta sín vel sem gestgjafi þjóðarinnar. Mín tilfinning er sú að Auður mundi bera með sér ferska vinda inn á Bessastaði og leiða þjóðina til góðra verka.

Vonandi fyrirgefur Auður mér þessa framhleypni. Ég tel mig þó þekkja hana nógu vel til þess að vita að ef hún telur að hún geti látið enn meira gott af sér leiða sem forseti, þá mun hún íhuga málið. Hún hefur aldrei verið hrædd við að taka slaginn.




Skoðun

Sjá meira


×