Skoðun

Pabbi! Má maður ljúga?

Vigfús Geirdal skrifar
Sannleikurinn birtist stundum með undarlegum hætti.

Í fljótu bragði virðist Landsdómur grátbroslegur brandari. Hann er skipaður af Alþingi til að fjalla um og dæma í málum sem sama Alþingi hefur ákveðið að höfða gegn ráðherrum vegna meintra brota í embættisrekstri.

Með vissum hætti má því segja að hér fari sami aðilinn með ákæru- og dómsvald. Sem í þróuðum réttarríkjum þykir ekki góð latína. Þetta segir þó ekki einu sinni hálfa sögu. Þegar haft er í huga að ráðherrar eru nær undantekningarlaust alþingismenn, að í dómnum sitja hæstaréttardómarar skipaðir af ráðherrum helstu valdaflokka landsins, auk annarra dómenda sem Alþingi hefur valið eftir flokkspólitískum línum, má segja að hér sé íslensk valdastétt að dæma í eigin sök.

Það verður heldur ekki sagt að réttarhaldið yfir Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sé stílbrot við þá umgjörð sem hið samansúrraða löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald hefur búið því. Sakborningurinn er eins og afmælisbarn í veislu; býður jafnt ákærendur, vitni sem dómendur innilega velkomna með handabandi. Eiginkonan gætir þess vandlega að horfa aðdáunaraugum á mann sinn hvenær sem sjónvarpsvélum er beint að henni. Gamall og góður vinur sér um brandarana. Og til að kóróna sköpunarverkið sjá fréttamenn (4. valdið), valdir eftir flokkspólitískum kvarða, um að lýsa herlegheitunum á viðeigandi hátt.

Myndin sem dregin er upp í fjölmiðlum er nokkurn veginn skýr þótt menn greini nokkuð á um hvenær þeir sáu hrunið fyrir. Geir gerði ekkert rangt. Árin 2007 og 2008 var einfaldlega allt orðið um seinan og alvarlegustu glöpin, sem Geir hefði getað framið, hefðu verið þau að segja almenningi satt og rétt frá. Sem hann kaus að gera ekki. Núverandi forsætisráðherra hefur jafnframt stigið fram forvera sínum til stuðnings og lýst því yfir að á þessum tíma hafi bókstaflega ekkert verið hægt að gera.

Tilkvaddir álitsgjafar hafa almennt tekið undir þá yfirlýsingu Geirs að hættulegast af öllu hefði verið að upplýsa almenning. Ætla má að þessi skoðun sé líka farin að síast inn í vitund almennings.

Það er hins vegar gömul saga og ný að börn eru oft skarpari greinendur en aðrir. Þegar fram komu í fréttum þau orð Geirs að ekki hefði mátt segja almenningi sannleikann árið 2008, spurði lítil stúlka pabba sinn: Pabbi, má maður ljúga?

Þessi barnslega einlæga spurning setur réttarhald landsdóms skyndilega í nýtt ljós. Þetta er ekki bara mál Alþingis gegn fyrrverandi ráðherra. Þetta er ekki aðeins mál gegn persónu Geirs Haarde. Málið snýst um skyldur kjörinna ráðamanna við umbjóðendur sína – lýðræði en ekki fámennisveldi.

Forsætisráðherra hrunstjórnarinnar er fjarri lagi eini sakborningurinn í málinu. Nær allir þeir sem að réttarhaldinu koma eru með einum eða öðrum hætti sakborningar. Og játning í málinu liggur þegar fyrir. Um leið og Geir lýsti því yfir að hann hefði ekki séð neina ástæðu til að upplýsa umbjóðendur sína, almenning í landinu, um það sem var að gerast þá opinberaði hann jafnframt að hann setti hagsmuni fámennrar klíku fjárglæframanna ofar velferð alþýðu manna. Geir Haarde braut með öðrum orðum gegn þeim sem hann hafði ríkastar skyldur við. Ekki bara hann. Forverar hans líka og eftirmaður.

Hér skal engu um það spáð hvort landsdómur Alþingis mun dæma Geir Haarde sekan. Því er mjög haldið á lofti að málið sé flókið og umfangsmikið, enginn hafi í rauninni gert neitt rangt heldur öðru nær. En málið er í raun ekkert flóknara en eftirfarandi dæmi:

Hópflutningabíll fullur af farþegum nemur staðar á Kambabrún. Bíllinn er keyptur á bílaláni og bankinn fær bílstjórann til að taka bremsurnar af, svona til að auka frelsið, gamanið og áhættuna við aksturinn. Bílstjórinn hlýðir þessu enda sjálfur fylgjandi frelsi einstaklingsins. Hann lætur farþegana ekki vita að bíllinn sé bremsulaus þar eð slíkt myndi aðeins hafa vandræði í för með sér. Hann leggur af stað, gefur hressilega í, setur í hlutlausan og reynir eftir bestu getu að stýra bílnum klakklaust niður í Hveragerði. Sem auðvitað tekst ekki.

Dettur einhverjum í hug að bílstjórinn yrði síðan dæmdur sýkn af allri sök? Jafnvel þótt sýnt yrði fram á að hann hefði gert allt sem í hans valdi stóð til að halda bílnum á veginum?

Nú liggur fyrir tillaga að nýrri stjórnarskrá. Margt er þar til bóta en engu að síður er sá alvarlegi annmarki á að þar vantar það grundvallarákvæði að hið æðsta og endanlega vald sé fólksins. Væri ekki ráð að koma þessari setningu inn í tillöguna áður en hún verður borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu?




Skoðun

Sjá meira


×