Skoðun

Heldur þann versta?

Davíð Egilsson skrifar
Það dylst engum að Íslendingar hafa orðið fyrir gífurlegu áfalli á síðustu árum sem hefur leitt af sér mikla spennu í samfélaginu. Raunar er engin furða að sú spenna hafi skapast enda er tekist á um grunnuppbyggingu samfélagsins þ.m.t. skiptingu auðs, atvinnu og möguleika fólks á framfærslu. Þess vegna er eðlilegt að velta fyrir sér hvort innviðir samfélagsins haldi við viðvarandi álag og hvernig má finna leiðir úr þeirri stöðu sem upp er komin.

Fræðimaðurinn Jarred Diamond hefur sett fram athyglisverðar kenningar í bók sinni „Collapse: How Societies Choose to Fail or Succeed“ um hvaða þættir kunna að hafa áhrif á hvort samfélög hrynja eða halda velli. Raunar verður að hafa þann vara á að Diamond hættir til, eins og mörgum kenningarsmiðnum, að aðlaga staðreyndir aðeins að kenningunum. Hins vegar eru þær allrar athygli verðar og það gæti hjálpað til að koma átökunum hér heima yfir í betri farveg að horfa aðeins til þeirra.

Diamond horfir til ytri og innri þátta sem kunna að hafa áhrif á hvort samfélög hrynja eða ekki og leitar m.a. skýringa í umhverfisbreytingum.

Þeir þættir sem Diamond lítur til eru loftslagsbreytingar, hversu mikinn viðnámsþrótt samfélögin hafa gegn álagi, samskipti við vinveitta aðila, samskipti við óvinveitta aðila, og loks þegar á reynir, viðbrögð stjórnvalda á ögurstund. Vel er unnt að yfirfæra umhverfisbreyturnar á hagfræðilegar breytur og bera saman við aðstæður sem eru uppi hér: Þjóðin hefur orðið fyrir gífurlegu áfalli af ytri aðstæðum í þeim samdrætti sem hefur orðið í efnahag heimsins. Það breytir engu hvort við áttum þar í afgerandi hlut eða ekki. Samfélag okkar er svo lítið að efnahagskerfið okkar hefur sáralítinn viðnámsþrótt við stórum áföllum meðan ekki er samstarf við stærri heildir sem geta tekið af hluta höggsins. Vel er unnt að horfa á samskipti okkar við aðrar þjóðir í hrunadansinum 2008 og finna samsvörun í „óvinum“ í IceSave málinu og hve lítið vinveittar þjóðir vildu hjálpa okkur. Það sem verður þó afgerandi eru viðbrögð ráðamanna á ögurstund.

Það er mikið áhyggjuefni þegar horft er til Alþingis hvernig andrúmsloft er þar og vinnubrögð. Það sem birtist okkur pöplinum er að persónuleg óvild virðist þar ríkjandi og meira púðri er eytt í að koma höggi á andstæðinginn en að vinna að lausn sameiginlegra mála. Nær allur kraftur fer í að skora hjá andstæðingnum og ganga í augu félaganna í barnalegum augnabliksátökum í stað þess að horfa til framtíðar. Það er frekar dapurlegt að horfa á hið besta fólk knúið eigin réttlætiskennd halda fram sjónarmiðum þar sem viðkomandi reynir að setja leikreglurnar og dæma í eigin sök út frá sínum forsendum. Því upplausnarástandi sem nú er uppi fylgir raunveruleg hætta á að mannkynslausnarar stígi fram og æri lýðinn í „lygaskaki lausnarar, með guð að baki“ svo vitnað sé í hið alkunna ljóð Síðasta blóm í heimi eftir James Thurber.

Fyrir utan að þurfa að takast á við bankahrunið og afleiðingar þess stöndum við sem þjóð á margs konar krossgötum varðandi val á leiðum á hvernig samfélag á að byggja upp. Nægir þar að nefna endurskoðun stjórnarskráarinnar, gjaldmiðilsmálin, aðildarferlið að Evrópusambandinu, fiskveiðistjórnunarkerfið, rammaáætlun um orkunýtingu og náttúruvernd en margt fleira má telja til. Væntanlega getur núverandi ríkisstjórn knúið fram vilja sinn í krafti þess meirihluta sem hún hefur. Hins vegar stendur eftir hin brennandi og einfalda spurning: Hvað svo?

Eðli nær allra ofangreindra mála er slíkt að regluverkið í kringum þau verður að vera stöðugt, skiljanlegt og gegnsætt ásamt því að mikil festa sé í umgjörðinni. Leikreglurnar verða að vera skýrar og helst sem næst altækar svo almenningur og atvinnulíf þekki umhverfið og viti nokkurn veginn við hverju er að búast. Þannig skapast samfélagsleg réttlætiskennd og borgaralegt aðhald, nokkuð sem sárlega vantaði á uppgangstímunum. Séu þeir þættir ekki til staðar á álagstímum eykst hætta á upplausn til muna þar sem allur kraftur fer í innbyrðis átök.

Miðað við skoðanakannanir sem hafa verið að birtast eru verulegar líkur á uppstokkun á þingi eftir næstu kosningar. Verði átakamál sem þessi knúin fram með veikum þingmeirihluta ári fyrir kosningar og í fullkominni andstöðu við tæpan helming þingsins eru yfirgnæfandi líkur á að næsta ríkisstjórn vilji snúa öllu við. Það yrði allra tap því flestir myndu búa við algjöra óvissu samfara upplausn og innri átökum. Ekki er víst að þjóðin geti borið þann kross án þess að kikna á eftir því sem undan er gengið. Þeir sem kosnir eru til forystu skulda okkur að reyna að vinna að varanlegri lausn mála.

Til þess þarf málamiðlanir og þær hafa það í för með sér að viðkomandi verður ósjaldan að slá af ítrustu kröfum. Hin gullna regla í öllum samningum er að horfa til hagsmuna, ekki afstöðu. Þeir sem eru svo uppteknir af því að halda fram afstöðu sinni í samningum missa gjarnan af tækifærum sem bjóðast við samningaborðið.

Þetta sannreyndum við vel sem sáum um samningagerð fyrir Íslands hönd á sinni tíð við alþjóðasamning um þrávirk lífræn efni, Stokkhólmssamninginn. Ísland með fólksfjölda sem nam þá um 300 þúsundum sat þar við sama borð og Evrópusambandið sem hafði þá samningsumboð yfir 370 milljóna. Þeir sem komu að samningagerðinni hér heima voru um það bil fimm og einn til tveir sátu samningafundi, meðan Evrópusambandið hafði margfaldan þann fjölda. Það eru engar ýkjur að áhrif Íslands í þessum samningi voru vel sambærileg við áhrif Evrópusambandsins. Það sem gerði gæfumuninn var að við þekktum hagsmuni okkar vel meðan samningsaðilar Evrópusambandsins voru stöðugt að takast á innbyrðis um afstöðu sína. Þeir gátu því sáralítið sveigt af leið á samningafundum enda bundnir af fyrirfram mótaðri afstöðu og sátu því fastir í eigin hjólfari og margir væntanlega knúnir áfram af eigin réttlætiskennd.

Meginatriði góðra samninga er að tekið sé mið af hagsmunum beggja samningsaðila en auðvitað ræður samningsstaðan og hvernig á er haldið hver niðurstaðan verður. Gjaldið fyrir að ljúka ekki ofangreindum málum svo nokkuð almenn sátt sé í samfélaginu er að festan hverfur og með henni öryggið. Á endanum tapa allir hvort sem þeir hafa barist fyrir ítrustu kröfum í krafti réttlætis og trúar eða ekki. Samningsafstaða Snæfríðar Íslandssólar „fremur þann versta en næstbesta“ færði henni ekki mikla hamingju eða velsæld.

Það hallar á báða aðila, stjórn og stjórnarandstöðu í þeim trúðleik sem fer fram fyrir opnum tjöldum. Hann er ekki það sem þjóðin þarf og ekki það sem þingmenn voru kosnir til. Þjóðin kaus þá sem fulltrúa sína til að leiða hana út úr alvarlegum vanda sem gæti orðið enn verri ef ekki verður brugðist rétt við í þeim ólgusjó sem enn leikur um landið. Kjörnum fulltrúum ber að vinna sameiginlega að málum svo við sem þjóð getum siglt í var. Það þarf að hugsa í lausnum en ekki í árásum á andstæðinginn. Eina sem vantar er vilji ólíkra afla til að vinna saman og í samfloti með þeim félögum SKYNSEMI, TILLITSSEMI, SANNGIRNI, HEIÐARLEIKA og HREINSKIPTNI. Þjóðin þarf nú að endurnýja kynnin við þá félaga frá því að leiðir skildu er þjóðin varð upptekin af að leita að einhverju sem ekki var innistæða fyrir.

Höfundur er jarðfræðingur og hefur komið að fjölmörgum þáttum umhverfismála í gegnum tíðina.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×