Lífið

Fólk kaupir og lætur gera upp gömul tekkhúsgögn

Arnar hefur tekið eftir stóraukinni ásókn í notuð húsgögn eftir 20 ár í bransanum. Fréttablaðið/Stefán
Arnar hefur tekið eftir stóraukinni ásókn í notuð húsgögn eftir 20 ár í bransanum. Fréttablaðið/Stefán
Tekkhúsgögn frá sjöunda áratugnum njóta mikilla vinsælda. Kreppan varð til þess að fólk kaupir mikið af notuðum húsgögnum og lætur gera þau upp hjá bólstrurum

Heimili „Það eru rosalega skemmtilegar breytingar í gangi," segir húsgagnasalinn Arnar Laufdal Aðalsteinsson.

Notuð húsgögn njóta gríðarlegra vinsælda í dag og þá sérstaklega tekkhúsgögn. Arnar hefur selt notuð húsgögn í 20 ár og rekur í dag verslunina Notað og nýtt í Kópavogi. Hann segir stemninguna hafa gjörbreyst á síðustu árum, fólk vilji fá peninga fyrir það sem það á og að ásóknin í notuð húsgögn hafi stóraukist. „Ég byrjaði í kringum 1990 með verslun sem hét Skeifan - húsgagnamiðlun," segir Arnar. „Ég rak hana í 15 ár og hætti 2007, þá var orðið mjög lítið að gera í þessu. Þá henti fólk þessu gamla drasli og keypti nýtt. Svo byrjaði ég aftur nú í haust og mér finnst landslagið hafa gjörbreyst."

Gamalt tekk nýtur mikilla vinsælda, sérstaklega hjá ungu fólki að sögn Arnars. Hann fær tekkið aðallega úr dánarbúum og segir fólk meðvitað um hversu vinsæl húsgögnin eru. „Ég er oft í smá erfiðleikum með að ná fólki niður á jörðina með verðið á þessu. Sumir halda að ef þeir eigi tekkskáp, þá séu þeir orðnir milljónamæringar," segir Arnar í léttum dúr. „En svo er tekk ekki sama og tekk. Þetta gamla danska er til dæmis vinsælla en þetta nýrra sem hefur verið framleitt í Noregi."

Það hefur einnig færst í aukana að fólk láti bólstra gömul húsgögn. Hafsteinn Sigurbjarnason í HS bólstrun tekur undir það. „Það hefur aukist. Fólk er farið að spá meira í hvort það sé með vandað upplag af húsgögnum í höndunum og hvort það borgi sig að taka þau í gegn. Yfirleitt með vandaðri og betri húsgögn þá borgar það sig," segir hann.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.