Viðskipti innlent

RÚV má auglýsa á vefnum

Tekjur Ríkisútvarpsins ohf. af auglýsingum og kostunum voru 1.556 milljónir króna á síðasta rekstrarári. Það eru tæplega 35% af heildartekjum RÚV.
Tekjur Ríkisútvarpsins ohf. af auglýsingum og kostunum voru 1.556 milljónir króna á síðasta rekstrarári. Það eru tæplega 35% af heildartekjum RÚV. fréttablaðið/Pjetur
Í frumvarpi um starfsemi Ríkisútvarpsins er bann við sölu á auglýsingum á vefnum afnumið. Stjórnendur einkarekinna sjónvarpsstöðva telja það ganga allt of skammt og takmarki ekki heildartekjumöguleika RÚV.

Í drögum að nýju frumvarpi að lögum um starfsemi Ríkisútvarpsins (RÚV) eru engar hömlur á sölu fyrirtækisins á auglýsingum á vefnum. Slíkar hömlur eru til staðar í gildandi lögum. Stjórnendur stærstu einkareknu sjónvarpsstöðva landsins telja nýja frumvarpið langt frá því að ná markmiði sínu um að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði. Tekjur RÚV af auglýsingum og kostunum voru 1.556 milljónir króna á síðasta rekstrarári, eða tæplega 35% af heildartekjum RÚV.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að frumvarpið geri ráð fyrir að hlutfall auglýsinga í sjónvarpsdagskrá RÚV verði skert með ýmsum hætti. Í gildandi lögum um RÚV segir að fyrirtækinu sé „óheimilt að selja auglýsingar til birtingar á veraldavefnum". Engar slíkar hömlur er að finna í frumvarpsdrögunum.

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir að RÚV gæti auðveldlega selt auglýsingar á vefnum fyrir sömu upphæð og fyrirtækið telur sig tapa á þeim takmörkunum sem settar eru á sjónvarpsauglýsingar þess. Hann telur þær breytingar sem frumvarpið boðar á starfsemi RÚV langt í frá fullnægjandi. „Mér sýnist sú takmörkun sem þarna er boðuð varðandi veru RÚV á auglýsingamarkaði vera afskaplega óskilvirk. Ef raunverulegur vilji væri til að setja takmarkanir þá væri mun skilvirkara að takmarka auglýsingar á ákveðnum tímum, í stað þess að klípa tvær mínútur af öllum klukkutímum sólarhringsins. Það hefur einnig legið fyrir að það þarf að útrýma kostunum hjá RÚV. Ég fæ ekki séð að það séu neinar takmarkanir á þeim í frumvarpinu. Sömuleiðis sýnist mér að hömlur um sölu RÚV á auglýsingum á vefnum verði felldar niður með frumvarpinu. Ég myndi telja að RÚV gæti auðveldlega selt auglýsingar á vefnum fyrir sömu upphæð og þeir telja sig tapa á takmörkunum á auglýsingum í sjónvarpi. Til framtíðar litið er það miklu stærra mál."

Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins, telur að ekki sé nægilega langt gengið til að takmarka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði. „Það er auðvelt að sjá fyrir sér hvernig RÚV getur bætt sér upp þessar tekjur sem þeir eru að missa, til dæmis með því að hækka verðin sem þeir bjóða. Þetta er ósannfærandi. Það sem mér finnst þó helst vanta í frumvarpsdrögin er að því er algjörlega ósvarað hversu stórt RÚV á að vera. Við höfum talið að það sé helmingi of stórt."

thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×