Erlent

Árás beint gegn lögreglunni

Árásir á lögreglustöðvar hafa verið nokkrar síðustu árin.
nordicphotos/AFP
Árásir á lögreglustöðvar hafa verið nokkrar síðustu árin. nordicphotos/AFP
Sprengjutilræðið við lögreglustöð í Malmö í gær var að öllum líkindum hefndaraðgerð glæpagengis. Undanfarin ár hafa nokkrar skotárásir og sprengjuárásir verið gerðar á lögreglustöðvar í Malmö.

Sprengjan sprakk í fyrrinótt um hálfþrjúleytið. Engan sakaði en byggingin er mikið skemmd.

Lögreglan segist hafa upplýsingar um að einn eða tveir menn hafi staðið að árásinni og vitað sé í hvaða átt þeir flúðu, en vildi lítið annað gefa upp. Tvær skotárásir voru gerðar á lögreglustöðvar í Malmö á síðasta ári og ein árið 2010. Íbúar í Malmö eru óttaslegnir vegna ofbeldisglæpa sem hafa verið algengir þar í borg síðustu árin.

Síðustu tvo mánuði hafa sex manns látist í skotárásum í Malmö. Síðast á þriðjudag var 48 ára maður myrtur í skotárás í Malmö. Lögreglan telur að það morð tengist starfsemi skipulagðra glæpagengja í borginni.

Ákveðið hefur verið að efla löggæslu í Malmö af þessu tilefni, en yfirvöld segja þó að ofbeldisglæpir séu ekki algengari í Malmö en öðrum stærri borgum Svíþjóðar, sé miðað við höfðatölu.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×