Erlent

Brugðust of seint við hungursneyð

Alþjóðasamfélagið brást of seint við hungursneyðinni í Austur-Afríku um mitt síðasta ár.
Alþjóðasamfélagið brást of seint við hungursneyðinni í Austur-Afríku um mitt síðasta ár. nordicphotos/AFP
Alþjóðasamfélagið brást of seint við hungursneyðinni sem geisað hefur í Austur- Afríku. Fyrir vikið létust þúsundir að óþörfu auk þess sem kostnaður við björgunarstarf hefur orðið talsvert hærri en ella. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu um ástandið í Austur-Afríku sem alþjóðlegu hjálparstofnanirnar Oxfam og Save the Children hafa unnið.

„Styrkveitendur hjálparstofnana verða að læra af reynslunni. Það þarf að grípa tímanlega til ráðstafana áður en hungur breytist í svelti,“ segir Nic Moyer, framkvæmdastjóri Humanitarian Coalition, samtaka mannúðarstofnana. Þá bendir hann á að hungursneyð gæti verið í uppsiglingu í Vestur-Afríku og tryggja verði að sömu mistök verði ekki gerð þar.

Í skýrslunni segir að áhættufælni hafi valdið sex mánaða töf á markvissum björgunaraðgerðum. Hjálparstofnanir eru gagnrýndar fyrir að hafa verið of lengi að ákvarða viðbrögð við hungursneyðinni. Þá eru ríkisstjórnir víða um heim einnig gagnrýndar fyrir að veita ekki hjálp fyrr en sannanir fyrir hörmungum voru komnar fram í stað þess að koma í veg fyrir þær.

Talið er að allt að 100 þúsund manns hafi týnt lífi í hungursneyðinni í Austur-Afríku um mitt síðasta ár.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×