Erlent

Rick Perry hættir og styður Newt Gingrich

Rick Santorum, Mitt Romney, Newt Gingrich og Ron Paul í sjónvarpskappræðum á mánudagskvöld.
Rick Santorum, Mitt Romney, Newt Gingrich og Ron Paul í sjónvarpskappræðum á mánudagskvöld. nordicphotos/AFP
Rick Perry, ríkisstjóri í Texas, sækist ekki lengur eftir því að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins í kosningunum í haust. Hann skýrði frá ákvörðun sinni í gær.

Jafnframt lýsti hann yfir stuðningi sínum við framboð Newts Gingrich, fyrrverandi forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Gingrich hefur verið að sækja í sig veðrið síðustu daga, og fékk meðal annars stuðningsyfirlýsingu frá Söruh Palin, fyrrverandi varaforsetaefni flokksins.

Mitt Romney, fyrrverandi ríkisstjóri í Massachusettes, sem hefur tekið forystu í forkosningum flokksins, reyndist hins vegar, þegar endurtalningu var lokið, hafa heldur færri atkvæði en Rick Santorum, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður, í forkosningunum í Iowa, sem haldnar voru 3. janúar. Hvorugur þeirra var þó formlega lýstur sigurvegari, því nokkur atkvæði eru enn týnd og því óljóst um endanlegar tölur.

Fjórði frambjóðandinn, fulltrúadeildarþingmaðurinn Ron Paul, gerði hlé á kosningabaráttu sinni á miðvikudag til að greiða atkvæði á þingi í Washington gegn því að skuldaþak Bandaríkjanna verði hækkað.

Á morgun verða svo forkosningar í Suður-Karólínu, þær þriðju í röð forkosninga Repúblikanaflokksins þetta árið.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×