Erlent

Stjórnarskránni þarf að breyta

Stefan Füle og José Manuel Barroso
stækkunarstjóri Evrópusambandsins og forseti framkvæmdastjórnar þess.
Stefan Füle og José Manuel Barroso stækkunarstjóri Evrópusambandsins og forseti framkvæmdastjórnar þess. nordicphotos/AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir að nokkur ákvæði nýrrar stjórnarskrár, sem tók gildi í Ungverjalandi um áramótin, standist ekki reglur Evrópusambandsins.

Stjórnarskránni þurfi því að breyta aftur, að öðrum kosti mega Ungverjar búast við refsiaðgerðum af hálfu ESB.

„Ungverjaland er lykilþátttakandi í Evrópufjölskyldunni og við viljum ekki að minnsti vafi leiki á því hvort þar sé borin virðing fyrir lýðræðisreglum og -gildum,“ sagði José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Evrópusambandið krefst svara frá ungverskum stjórnvöldum innan mánaðar og gefur sér síðan tvo mánuði til að fara yfir þau svör.

Um er að ræða ákvæði sem brjóta gegn reglum ESB um sjálfstæði seðlabanka og persónuvernd, ásamt ákvæðum um lækkun eftirlaunaaldurs dómstóla. Þá vill framkvæmdastjórnin fá frekari upplýsingar frá ungverskum stjórnvöldum um almennt sjálfstæði dómstóla í landinu.

Evrópusambandið hefur hótað því að hefja ekki viðræður um fjárhagsaðstoð, sem Ungverjar hafa beðið um, fyrr en sjálfstæði seðlabanka Ungverjalands hefur verið tryggt.

Framkvæmdastjórnin getur einnig farið með málið fyrir Evrópudómstólinn.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×