Erlent

Allsherjarverkfall lamar Nígeríu

Nígeríubúar mótmæla ekki aðeins hærra bensínverði heldur einnig áratugalangri spillingu í landinu. Margir héldu á lofti myndum af forsetanum Goodluck Jonathan með horn á hausnum. fréttablaðið/ap
Nígeríubúar mótmæla ekki aðeins hærra bensínverði heldur einnig áratugalangri spillingu í landinu. Margir héldu á lofti myndum af forsetanum Goodluck Jonathan með horn á hausnum. fréttablaðið/ap
Allsherjarverkfall hófst í Nígeríu í gær til að mótmæla þeirri ákvörðun stjórnvalda að hætta að niðurgreiða bensín.

Verkalýðsfélög boðuðu til verkfallsins sem varð til þess að skólar, skrifstofur, verslanir og bensínstöðvar um allt landið lokuðu í gær. Verkfallið stendur um óákveðinn tíma.

Þúsundir mótmæltu í höfuðborginni Lagos og í öðrum borgum í gær. Lögregla hefur beitt táragasi auk þess sem fregnir herma að minnst þrír mótmælendur hafi látið lífið. Útgöngubann var í borginni í gærkvöldi og í nótt.

Bensínverðið hækkaði um áramótin og kostar lítrinn af bensíni nú tæpan dollar, eða 115 íslenskar krónur. Flestir Nígeríumenn lifa á tveimur dollurum á dag og breytingin hefur mikil áhrif. Fólk mótmælti ekki aðeins hærra bensínverði heldur einnig spillingu í stjórnkerfinu og ofbeldi af höndum íslamista.

Forsetinn Goodluck Jonathan hefur varið ákvörðunina og sagt að niðurgreiðslan hafi ekki borgað sig. Hann sagði í sjónvarpsávarpi á laugardag að ákvörðunin varðaði almannahag og hefur lofað að þeir átta milljarðar dollara sem sparist ár hvert við breytingarnar muni fara í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfisins og annarra opinberra verkefna.

Þá sagði hann að háttsettir embættismenn taki á sig fjórðungslaunalækkun.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×