Erlent

Romney er enn með gott forskot

Romney er talinn hafa staðið af sér gagnrýnina í kappræðum helgarinnar.fréttablaðið/ap
Romney er talinn hafa staðið af sér gagnrýnina í kappræðum helgarinnar.fréttablaðið/ap
Mitt Romney hefur enn forskot á aðra frambjóðendur í forvali Repúblikanaflokksins í New Hampshire samkvæmt skoðanakönnunum. Forvalið fer fram á morgun.

Frambjóðendur öttu kappi í tvennum kappræðum í New Hampshire um helgina. Aðrir frambjóðendur gagnrýndu Romney harðlega í seinni kappræðunum, meðal annars var hann sakaður um að vera atvinnustjórnmálamaður og efast var um efnahagsáætlanir hans. Romney beitti sömu aðferðum í báðum kappræðunum og forðaðist að mestu að ráðast að andstæðingum sínum. Hann gagnrýndi þó Jon Huntsman, sem var sendiherra Bandaríkjanna í Kína, fyrir að starfa undir stjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta. Búist er við því að kosningarnar á þriðjudag muni ráða úrslitum fyrir Huntsman, sem hefur eytt mestum tíma í kosningabaráttunni í New Hampshire.

Romney bar sigur úr býtum í fyrstu forkosningum sem fóru fram í Iowa í síðustu viku. Hann hlaut átta atkvæðum meira en Rick Santorum öldungardeildarþingmaður. Ron Paul varð þriðji. Michelle Bachmann dró sig út úr kosningabaráttunni í síðustu viku. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×