Skoðun

Hugmynd að grænu hjarta í Reykjavík

Björn B. Björnsson skrifar
Margir Reykvíkingar eru á móti fyrirhugaðri hótelbyggingu við sunnanvert Ingólfstorg vegna þess skaða sem hún veldur á umhverfi miðborgarinnar: Við fáum minni sól á Ingólfstorg, Nasa verður rifið og risahótel kallar á aukna umferð um þennan viðkvæmasta blett borgarinnar á kostnað almannarýma og Alþingis.

Borgarstjóri sagði nýlega í Kastljósi að hann væri ekki spenntur fyrir risahóteli á þessum stað en að ekki væri komin fram hugmynd sem leysti málið.

Hér er slík hugmynd.

Hún er að Reykjavíkurborg og Alþingi taki höndum saman og kaupi Landsímahúsið, háhýsið þar fyrir aftan og Miðbæjarmarkaðinn – og láti rífa þessi hús. Þar með væri Austurvöllur, Fógetagarðurinn og Ingólfstorg eitt opið svæði; grænt og sólríkt hjarta Reykjavíkur. Sólar nyti miklu lengur á Austurvelli og Ingólfstorg væri ekki lengur sá kaldranalegi skuggablettur sem það nú er. Alþingishúsinu og byggingum þess væri sköpuð umgjörð sem hæfir í stað þess að fyrirhugað risahótel troði því um tær með tilheyrandi rútu- og jeppaumferð.

Nokkur eftirsjá væri að gamla Landsímahúsinu, en það er nú þegar ekki svipur hjá sjón vegna viðbyggingar og hægt væri að reisa hús í sama útliti annars staðar (t.d. gegnt Ráðhúsinu fyrir skrifstofur þingmanna).

Sjálfsagt væri að efna til alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um hönnun alls svæðisins þar sem hugsanlega mætti opna fyrir þann möguleika að þar verði nokkur lágreist hús í gömlum stíl, aðflutt eða nýbyggð.

Þessi hugmynd mundi að sönnu kosta nokkurt fé en minna en bygging Ráðhúss eða Perlu svo dæmi séu tekin. Alþingi hefur mótmælt fyrirhugaðri hótelbyggingu svo líklegt má telja að þar á bæ vilji menn leggja nokkuð á sig til að afstýra því umhverfisslysi sem ella vofir yfir og mun ekki síst bitna á ásýnd og aðkomu þinghússins.

Þekktur er sá áhugi stjórnmálamanna að reisa byggingar sem minnismerki um veru sína og völd. Þessi hugmynd gengur í öfuga átt. Hér væri verið að breyta ásýnd miðborgarinnar og notagildi því þetta stóra græna svæði væri sólríkt og skjólgott og myndi nýtast Reykvíkingum og gestum þeirra með margvíslegum hætti um aldir.




Skoðun

Sjá meira


×