Erlent

Sagðist vera með banvænt krabbamein til þess að fjármagna brúðkaup

Hin 25 ára gamla Jessica Vega frá New York í Bandaríkjunum vildi halda upp á hið fullkomna brúðkaup. Til þess að svo gæti orðið vantaði henni fjármagn. Hún brá því á það óvanalega ráð að ljúga að fólki að hún væri með banvænt krabbamein og tókst þannig að svíkja þúsundir dollara út úr fjölda fyrirtækja og einstaklinga sem stóðu í þeirri trú að Vega ætti aðeins örfáa mánuði eftir ólifaða.

Féð notaði hún til þess að halda stórt og mikið brúðkaup. Svo fór hún ásamt eiginmanni sínum til Aruba í brúðkaupsferð. Maðurinn hennar vissi hinsvegar ekki hið sanna fyrr en nokkru síðar. Hann skildi þá við hana og lét fjölmiðla vita um athæfi Vega. Í kjölfarið hófst lögreglurannsókn á málinu sem leiddi til þess að Vega var ákærð fyrir fjársvik. Sjálf neitar hún sök.

Hið sérkennilega við málið er að þrátt fyrir óheiðarleika Vega ákvað fyrrverandi eiginmaðurinn að fyrirgefa henni lygina og tóku þau því aftur saman. Verði Vega fundin sek á hún yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×