Erlent

Páfi fjallar um siðferðilegt uppeldi

Mynd/AP
Benedikt páfi gerði siðferðilegt uppeldi barna og heimsfrið í framtíðinni að umtalsefni í nýársprédikun sinni.

„Mig langar til að minna á að það að innræta ungu fólki virðingu á sannleikanum og þekkingu á grundvallar gildum og dygðum þýðir í raun að horfa björtum augum til framtíðar," sagði hann í messunni og undirstrikaði mikilvægi þess að ungt fólk lærði „list friðsamlegrar sambúðar og gagnkvæma virðingu" en heimurinn sem það lifði í gæti kennt þeim að hegða sér á annan hátt.

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, kom einnig lítillega inn á trúarlegt uppeldi í nýársprédikun sinni í Dómkirkjunni í morgun. „Gott á það barn sem fær veganesti trúar úr foreldahúsum," sagði hann.

Helst fjallaði hann þó um siðferðilegar reglur í samfélaginu og bloggfærslur og ummæli í netheimum, óvægna dóma og órökstudd gífuryrði fólks þar. „Menn eru dæmdir sekir ef frásagan telst söluvæn," sagði hann og bætti við, „Öll þurfum við að horfa inn í eigin barm og skyggnast eftir brumum umburðarleysis og sjálfumgleði hjá okkur sjálfum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×