Viðskipti innlent

Lítilsháttar vöxtur í dagvöruverslun

Lítilsháttar vöxtur var í dagvöruverslun í janúar miðað við árið áður að magni til þó hún hafi aukist um 6,7% í krónutölu vegna verðhækkana. Almennt helst sala á dagvörum í horfinu og hefur verið nokkuð stöðug allt síðasta ár.

Þetta kemur fram í yfirliti frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að vöxtur í raftækjaverslun haldi áfram eins og verið hefur allt síðasta ár. Verð á raftækjum fer lækkandi og virðast landsmenn farnir að endurnýja hjá sér raftæki heimilisins eftir mikið samdráttarskeið í kjölfar hrunsins.

Smávægilegur samdráttur var á janúarútsölum fataverslana frá janúar í fyrra þó verð á fötum sé lægra en í fyrir 12 mánuðum. Nokkuð hefur verið fjallað um að fataverslun hafi í vaxandi mæli flust til útlanda. Aðrir þættir sem gætu haft áhrif er að dýrari merkjavara seljist minna en áður var og að nýtni hafi aukist.

Lítilsháttar samdráttur var í sölu áfengis í janúar. Hækkun á áfengisgjaldi um áramótin um 5,1% virðist ekki hafa haft teljandi áhrif á söluna. ÁTVR áætlar að hækkun áfengisgjaldsins um áramótin hafi valdið 2,1% verðhækkun á áfengi.

Velta innlendra greiðslukorta heimilanna jókst um 10,0% síðasta árið samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands. Þá jókst kaupmáttur launa um 3,6% í desember 2011 miðað við sama mánuði árið áður samkvæmt Hagstofu Íslands. Seðlabankinn áætlar að einkaneysla hafi aukist um 4,5% á síðasta ári og spáir 2,2% aukningu á yfirstandandi ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×