Skoðun

Sittu!

Kristján Helgason skrifar
Verðtryggingin er eins og hundur sem eltist við skottið á sér, hraðar og hraðar, án nokkurs árangurs. Í stað þess að stuðla að réttlátri endurgreiðslu skulda, þá er hún hrein og klár eignatilfærsla frá lántaka til lánveitanda. Þetta er dæmi sem gengur ekki upp. Samkomulag sem tekur aðeins tillit til þarfa annars aðilans er dæmt til að mistakast.

Mikið hefur verið rætt um 20% niðurfellingu skulda, en hún leysir ekki vandann. Ekki er heldur sátt um afnám verðtryggingar. Viljum við hverfa aftur til þess tíma þegar það borgaði sig að skulda sem mest og láta verðbólguna vinna fyrir sig? Ég segi nei. Einfaldasta leiðin er að breyta útreikningi verðtryggingarinnar, þetta eru jú bara reiknireglur, samkomulag um hvernig við viljum haga hlutunum.

Ég er einn af þeim sem tók á mig skell þegar bankakerfið hrundi, það svíður undan 20% hækkun fasteignalána á einu ári af tveimur eignum, en ég hef breitt bak. Við ákváðum að standa þetta af okkur saman sem þjóð. Vissulega væri gaman að sjá lánin lækka á einu bretti um 20%, en það er skammgóður vermir. Vandamálið verður áfram til staðar. Með óbreyttri verðtryggingu halda skuldirnar áfram að hækka þó ég standi í skilum upp á punkt og prik. Og það sem verra er, afborganir húsnæðislána munu á næstu árum taka stöðugt hærri toll af mánaðarlaunum mínum uns ekkert er eftir.

Ný verðtrygging er mesta hagsmunamál okkar kynslóðar, samanborið við lánakjör eru launakjör þvílíkt aukaatriði. Það er kominn tími á nýtt samkomulag, nýja þjóðarsátt. Breytum útreikningi verðtryggingar þannig að allir geti unað sáttir. Tökum stjórn á hundinum okkar í stað þess að láta hann stjórna okkur. Segjum honum að sitja, hann er hvort sem er orðinn þreyttur á þessari hringavitleysu. Sittu!




Skoðun

Sjá meira


×