Erlent

Ísland er friðsælasta ríki heimsins

Ísland er sem fyrr friðsælasta ríki heimsins. Raunar var heimurinn friðsælli í fyrra en hann var árið áður þrátt fyrir átökin í Sýrlandi.

Þetta kemur fram í nýrri mælingu á friðarvísitölu heimsins fyrir síðasta ár eða The Global Peace Index. Vísitalan er gefin út árlega af stofnuninni Institute for Economics and Peace. Þetta er í fyrsta sinn í tvö ár að heimurinn mælist friðsælli milli ára.

Vísitala þessi nær yfir 158 ríki heimsins og hún mælir m.a. hluti eins og þjóðfélagslegan óróa, glæpi, vopnakaup, þátttöku í stríðsrekstri og samskipti við nágrannaríki.

Ein af athyglisverðari niðurstöðum vísitölunnar er að í fyrsta sinn undanfarin sex ár eru löndin sem liggja suður af Sahara eyðimörkinni í Afríku ekki ófriðsælustu svæði heimsins. Þann vafasama heiður hljóta ríkin í Norður Afríku og í Miðausturlöndum í kjölfar átakanna í Sýrlandi og þeirra uppreisna sem fylgt hafa í kjölfar hins svokallaða arabíska vors.

Sómalía er hinsvegar sem fyrr það land í heiminum þar sem mestur ófriður ríkir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×