Erlent

Telja sig hafa fundið vatn á fylgitungli Satúrnusar

Vísindamenn telja sig hafa fundið risastórt vatn uppfullt af metangasi á einu fylgitungli Satúrnusar, Títan, samkvæmt fréttavef AP. Geint er frá niðurstöðunum í tímaritinu Nature sem kemur út á morgun.

Vísindamenn töldu áður að það væri ekki möguleiki á því að vötn full af metan gætu þrifist á svæðinu sem það fannst vegna sólarinnar. Annað virðist hafa komið í ljós en uppgötvunin er byggð á myndum alþjóðlega geimfarsins Cassini sem náði myndunum árið 2005. Talið er að vatnið sé um tæplega 2400 ferkílómetrar á stærð.

Þess ber að geta að þó vatn hafi fundist á tunglinu er mjög ólíklegt að þar sé líf að finna. Það sem er fréttnæmt er að við miðbaug Títans hafa hingað til engin stöðuvötn fundist. Það bendir til þess að undir yfirborðinu þar séu metanuppsprettur sem gætu verið forsenda lífs.

Lofthjúpurinn inniheldur metan sem er fljótandi í nístingskuldanum sem ríkir þar (-180°C) og rignir niður á yfirborðið þar sem myndast árfarvegir og lækir. Stöðuvötn eru þekkt á pólsvæðum Títans, þar er til dæmis eitt sem nefnt er Mývatn

Hægt er að fræðast frekar um málið á vef AP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×