Skoðun

Tækifæri framtíðarinnar

Einar Smárason skrifar
Hvar liggja atvinnumöguleikar og tækifæri framtíðarinnar?

Þetta er spurningin sem fólk ætti að spyrja sig áður en það fer í nám eða út á atvinnumarkaðinn.

En hugsar ungt fólk nógu mikið út í þetta? Oftar en ekki eru ákvarðanir byggðar á upplýsingum í fortíðinni og má sem dæmi nefna „hvaða menntun hefur gefið vel af sér fyrir forfeður okkar“. Í rauninni ættu einstaklingar frekar að líta til þess hvaða möguleikar kunna að gefa vel af sér í framtíðinni. Veröldin er síbreytileg og hlutir þróast áfram. Menntun er slík auðlind (ólíkt öllum öðrum) að því meira sem þú notar hana því meira vex hún.

Nú kann þetta að hljóma eins og það sé ekkert mál að spá fyrir um framtíðina, sem er ekki raunin. Einstaklingar geta samt sem áður reynt að taka meðvitaðar ákvarðanir um hvað kann að verða og hvar tækifærin liggja.

Tækifærin munu líklegast liggja mjög víða og möguleikarnir eru óteljandi. En það er einn hluti af heiminum sem er líklegur til að bjóða upp á gífurlega möguleika í komandi framtíð og það er hafið. Hafið er einn minnst rannsakaði hluti jarðar en samkvæmt NOAA (The National Oceanic and Atmospheric Adminstration) þá eru um 95% af hafinu ókönnuð sem er áhugavert með tilliti til þess að hafið þekur um 70% af yfirborði jarðar.

Þetta þýðir bara eitt, að þarna úti liggja gífurleg tækifæri og ekki bara tækifæri fyrir vísindamenn og sjávarútvegsfræðinga heldur alla flóruna af fræðimönnum, viðskiptafræðinga, verkfræðinga, lögfræðinga, tölvunarfræðinga og svo mætti lengi telja.

Þetta eru tækifæri sem við ættum að hafa í huga og reyna nýta okkur eftir fremsta megni. Íslendingar eru meðal fremstu þjóða heims í haftengdri starfsemi og sjávarútvegurinn er einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar. Því ætti það að vera okkur kappsmál að stefna á að vera best á þessu sviði og lykillinn að því er þekking, sem fæst einungis með menntun og reynslu. Við ættum að leggja áherslu á að fræða ungt fólk á þessu sviði og vekja athygli þess á þeim ónýttu tækifærum sem liggja í hafinu.

Íslenski sjávarklasinn hefur sett á fót öflugan hóp sem samanstendur af fulltrúum úr framhalds– og háskólum sem og aðilum úr atvinnulífinu til að stuðla að frekari menntun, skilningi og framþróun á þessu sviði. Vandamálið er að ungu fólki finnst haftengd starfsemi oftar en ekki hljóma frekar óspennandi, þegar staðreyndin er sú að það veit lítið sem ekkert um þessa starfsemi. Það þarf að breyta þessari ímynd með því að kynna unga fólkinu það sem hafið hefur upp á að bjóða og það þarf að gera það á áhugaverðan hátt. Ungt fólk getur verið erfiður markhópur, þar sem það verður fyrir ofgnótt upplýsinga á hverjum degi og þess vegna er ekki sama hvernig að þessu er staðið.

Það hefur lengi verið sagt hér á Íslandi „annaðhvort ferðu í skóla eða þú endar í fiskinum“ sem er í rauninni mjög röng hugsun og gefur mjög svarta ímynd af sjávarútvegi og annarri haftengdri starfsemi. Það ætti frekar að hvetja fólk til að fara í skóla og mennta sig í haftengdum greinum, á hvaða sviði sem er, til dæmis sjávarútvegsfræði, viðskiptafræði, líffræði og fleira. Ef það er einhver hluti af heiminum sem felur í sér mikla framtíðarmöguleika og tækifæri þá er það hafið.




Skoðun

Sjá meira


×