Erlent

Heimilislaus stúlka keppir í vísindasamkeppni Intel

Samantha Garvey
Samantha Garvey mynd/AP
Heimilislaus stúlka í Bandaríkjunum hefur náð ótrúlegum árangri í vísindasamkeppni tölvurisans Intel. Hún er komin í undanúrslit keppninnar og á möguleika á vinna 100.000 dollara.

Samantha Garvey hefur verið heimilislaus frá sjö ára aldri. Hún og fjölskylda hennar hafa leitað í athvörf fyrir heimilislausa. Þau hafa þó oft á tíðum þurft að sofa undir berum himni.

En þrátt fyrir erfiðleika sína er Garvey afburða nemandi.

Hún tók þátt í vísindasamkeppni tölvufyrirtækisins Intel þar sem hún kynnti rannsóknir sínar. Garvey, sem hefur mikinn áhuga á sjávarlíffræði, hefur um árabil rannsakað tengsl ránfiska og kræklinga. Á næstu dögum fær Garvey síðan að vita hvort að hún kemst í úrslit keppninnar.

Þegar upp komst um aðstæður Garveys og fjölskyldu hennar var þeim boðið húsnæði. Foreldrum hennar hefur einnig verið útvegað vinnu.

Það var síðan tilkynnt í dag að Garvey verður gestur í spjallþætti Ellen DeGeners á morgun. Þar mun Ellen gefa Garvey 50.000 dollara sem hún getur notað til að fjármagna háskólanám sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×