Erlent

Vilja mynda stjórn í dag

Antonis Samaras og Alexis Tsipras hittust á fundi í gær. Tsipras segir flokk sinn verða í stjórnarandstöðu, en ekki verði komið í veg fyrir stjórnarmyndun.
Antonis Samaras og Alexis Tsipras hittust á fundi í gær. Tsipras segir flokk sinn verða í stjórnarandstöðu, en ekki verði komið í veg fyrir stjórnarmyndun. fréttablaðið/ap
Mynda þarf ríkisstjórn með eins mörgum flokkum gríska þingsins og hægt er, sagði leiðtogi Nýja lýðræðisflokksins í gær. Hann fékk stjórnarmyndunarumboð og vill breyta skilmálum björgunaráætlunar.

Antonis Samaras, leiðtogi Nýja lýðræðisflokksins í Grikklandi, fékk formlegt umboð frá forsetanum Karolos Papoulias til að mynda ríkisstjórn í gærmorgun. Til þess hefur hann þrjá daga, og forsetinn sagði mikilvægt að ný stjórn yrði mynduð sem allra fyrst. „Landið má ekki við því að vera stjórnlaust í svo mikið sem klukkustund.“

Samaras sagðist í gær ætla að leita leiða til þess að breyta skilmálum í björgunaráætlun Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í gærmorgun varð hækkun á mörgum mörkuðum vegna úrslita kosninganna, en það entist ekki lengi, sem þykir gefa til kynna að sérfræðingar hafi ekki trú á því að með úrslitunum sé vandi evrusvæðisins nú að minnka.

Samaras fundaði með leiðtoga Syriza, róttæka vinstribandalagsins, í gær. Leiðtoginn, Alexis Tsipras, sagði flokk sinn ætla að vera í stjórnarandstöðu og kljást við stjórnvöld. „Hlutverk sterkrar og ábyrgrar stjórnarandstöðu er að hafa áhrif og grípa inn í og þetta er það sem ég fullvissaði herra Samaras um að við munum gera.“

Þrátt fyrir viðbrögð Tsipras sagði Samaras að nauðsynlegt væri að mynda ríkisstjórn í þjóðarsátt með eins mörgum flokkum og hægt er. Hann fundaði með leiðtoga sósíalistaflokksins Pakos, Evangelos Venizelos, seinni partinn í gær. Flokkarnir tveir gætu myndað meirihluta en Samaras vill fleiri flokka með til þess að hafa stærri meirihluta í þinginu og meiri stöðugleika. Venizelos sagði í gær að nauðsynlegt væri að ríkisstjórn hefði verið mynduð fyrir lok dagsins í dag.

Þegar öll atkvæði höfðu verið talin hafði Nýi lýðræðisflokkurinn fengið 29,7 prósent atkvæða og 129 þingsæti. Syriza hlaut 26,9 prósent og 71 sæti og Pasok 12,3 prósent og 33 sæti. Flokkurinn sem hlýtur flest atkvæði í kosningum í Grikklandi fær alltaf 50 sæti til viðbótar; þannig fékk Nýi lýðræðisflokkurinn í raun 79 þingsæti í kosningunum. Stjórnmálaskýrendur hafa bent á að einungis fjörutíu prósent kjósenda hafi valið flokka sem gefa sig sérstaklega út fyrir að styðja björgunaráætlunina frá ESB og AGS.

Þrátt fyrir þetta var niðurstöðunum fagnað í Evrópu. Fjármálaráðherrar evruríkjanna sautján gáfu út yfirlýsingu þar sem fram kom að besta leið Grikkja út úr kreppunni væri að halda áfram endurbótum. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hringdi í Samaras þegar úrslitin voru ljós og óskaði honum til hamingju og minnti á mikilvægi þess að ríkið héldi áfram að vinna að björgunaráætluninni. thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×