Erlent

Ákveðið að loka 16 kirkjum í Kaupmannahöfn

Héraðsráð Kaupmannahafnar hefur ákveðið að loka 16 kirkjum í borginni. Ástæðan fyrir þessu er að prestar messa á sunnudögum í síauknum mæli fyrir tómum kirkjum í borginni.

Vandamál danskra presta og raunar kirkjunnar í heild er ekki bundið við Kaupmannahöfn eina og sér. Töluvert hefur verið af fréttum í fjölmiðlum um alla Danmörku undanfarna mánuði að prestar hafi aflýst sunnudagmessum sínum af þeirri ástæðu að ekkert sóknarbarna þeirra var mætt í kirkjuna. Í besta falli mæti innan við tugur sóknarbarna í messur.

Í frétt um málið í Jyllands Posten er haft eftir Inge Lise Pedersen formanni héraðsráðs borgarinnar að tilkynnt verði í dag hvaða 16 kirkjum í Kaupmannahöfn verði lokað. Pedersen segir að ef í ljós komi að þessi ákvörðun sé röng verði hún endurskoðuð.

Ný skoðanakönnun meðal eitt þúsund sóknarpresta í Danmörku sýnir að þeir eru síður en svo á móti því að loka kirkjum vegna dræmrar aðsóknar að messum í þeim. Raunar sýndi könnunin að aðeins 29% þeirra voru andvígir slíku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×