Innlent

Fann sig knúinn til að fara út í pólitík

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Birgir Örn Guðjónsson, var kjörinn formaður Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar. Hann er lengst til vinstri á myndinni.
Birgir Örn Guðjónsson, var kjörinn formaður Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar. Hann er lengst til vinstri á myndinni. mynd/kjm
Nýr formaður Samstöðu, flokks sem Lilja Mósesdóttir stofnaði, ætlaði aldrei að koma nálægt stjórnmálum en fann sig knúinn til þess í núverandi ástandi. Hann segir mikið verk vera að vinna sérstaklega í skuldavanda þjóðarinnar.

Birgir Örn Guðjónsson var kjörinn formaður Samstöðu á landsfundi flokksins í gær. Hann er fæddur árið 1976, starfar sem varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og býr ásamt fjölskyldu sinni í Hafnarfirði. Birgir var eini frambjóðandinn í formannskjörinu en hann hefur aldrei komið nálægt stjórnmálum áður.

„Þetta er svona hlutverk sem ég bjóst aldrei við að vera kominn í fyrir nokkru síðan, því að ég hef aldrei sóst eftir neinni stöðu eða titlum og aldrei haft neina drauma um það að vera stjórnmálamaður eða neitt slíkt en ég sá að það var verk að vinna," segir Birgir.

Hann segist hafa fundið sig knúinn til að fara út í pólitík eftir að hafa sjálfur fengið að kynnast skuldavanda heimilanna þegar fjölskyldan keypti íbúð í Hafnarfirði og honum finnist mikið verk að vinna við að breyta hugsunarhættinum í nútíma stjórnmálum.

„Og samstaða var flokkur sem að ég sá að þeir voru tilbúnir að taka á hlutunum fyrir alvöru, Lilja Mósesdóttir hefur sýnt það og ég fór að starfa með henni og í framhaldi af því var þessi ákvörðun tekin."

Ekki hefur verið ákveðið hvernig uppröðun á lista Samstöðu mun fara fram en Birgir býst fastlega við að vera í fyrsta sæti fyrir flokkinn í Suðvesturkjördæmi en hann segir stefnu Samstöðu fyrst og fremst vera í skulda og framfærsluvanda heimilanna.

„Þetta snýst um það að ná stjórnmálunum aftur til fólksins, að almannahagsmunir séu hafðir í öndvegi en ekki sérhagsmunir, það er grunnurinn í þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×