Erlent

Aftur dauðir svartþrestir um allt í smábæ í Arkansas

Að þúsundir spörfugla falli dauðir af himni ofan er sjaldgæft. Og að slíkt gerist í sama bæjarfélaginu tvo nýársdaga í röð er sennilega eindæmi í sögunni.

Íbúar í smábænum Beebe í Arkansas í Bandaríkjunum vöknuðu upp við það í gærmorgun að þúsundir svartþrasta lágu eins og hráviði um götur bæjarins. Hið sama gerðist á nýársdagsmorgunn í fyrra í þessum bæ og komst þá í heimsfréttirnar.

Þessi fugladauði er vísindamönnum mikil ráðgáta. Í fyrra var meðal annars talið að flugeldar hafi valdið því að fuglarnir dóu úr hræðslu. Því hafði lögreglan í Beebe bannað flugelda á gamlárskvöld en allt kom fyrir ekki. Aðrar kenningar eins og til dæmis að þrumur og eldingar hafi grandað fuglunum hafa einnig reynst vera rangar.

Vísindamenn reyna nú enn og aftur að finna skýringar á þessu náttúrufyrirbæri í Beebe og beina sjónum m.a. að því hvað olli því að þessir þrestir voru yfirhöfuð flögrandi um að næturlagi enda er slíkt alls ekki í eðli þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×