Skoðun

Eru konur konum verstar?

Fimmtudaginn 26. janúar sl. veitti Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) Katrínu Olgu Jóhannesdóttur og Sigríði Margréti Oddsdóttur viðurkenninguna Gæfusporið 2012 fyrir að hafa keypt fyrirtækið Já og byggt það upp með „kjarkmiklum konum í lykilstöðum“.

Síðasta vor tóku Katrín Olga og Sigríður Margrét ákvörðun um að loka þjónustuveri Já á Akureyri sem leiddi til þess að 19 konur misstu vinnuna. Flestar voru konurnar með langan starfsaldur og eiga ekki greiðan aðgang að öðrum störfum. Ákvörðun Gæfusporskvenna var því mikið reiðarslag fyrir konurnar á Akureyri, fjölskyldur þeirra og allt samfélagið hér fyrir norðan. Kunnum við Akureyringar þeim litlar þakkir fyrir.

Gengisfelling FKA

Því vekur furðu að Félag kvenna í atvinnurekstri skuli gengisfella viðurkenningar félagsins með því að veita Já-konum Gæfusporið í upphafi árs 2012. Hvernig í ósköpunum má líta á það sem gæfuspor að segja upp 19 konum í sveitarfélagi þar sem búa um 18.000 manns? Það jafngildir því að 205 konum hefði verið sagt upp á höfuðborgarsvæðinu og hefði þá líklega heyrst hljóð úr horni.

19 gæfuspor?

Viðurkenningin kvað vera veitt til „fyrirtækis eða stofnunar sem nýtir kraft kvenna innan sinna raða“ en hér er ekki sama kona og kona. Forstjórinn og stjórnarformaðurinn teljast líklega hafa stigið 19 gæfuspor með því að loka þjónustuverinu á Akureyri og reka 19 konur á gólfinu. Eru konur ef til vill konum verstar?

Að því sögðu vill ég hrósa FKA fyrir að veita konum í atvinnurekstri viðurkenningar fyrir þeirra störf þótt þessi viðurkenning orki tvímælis en verði vonandi til þess að eigendur og stjórnendur Já taki gæfuríkari spor í framtíðinni.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×