Innlent

Ráðherra kallar til samráðs um safnið

Helgi Torfason safnstjóri kallaði eftir úttekt Ríkisendurskoðunar þar sem stefnumótunarvinna hans hefur ekki fengið hljómgrunn í ráðuneytinu. 
fréttablaðið/gva
Helgi Torfason safnstjóri kallaði eftir úttekt Ríkisendurskoðunar þar sem stefnumótunarvinna hans hefur ekki fengið hljómgrunn í ráðuneytinu. fréttablaðið/gva
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kallaði eftir því á Alþingi í gær að ráðuneytið myndi efna til samráðs, hugsanlega á vettvangi Allsherjar- og menntamálanefndar, um hvaða skal að gert í málefnum Náttúruminjasafns Íslands. Hún segir söfn landsins almennt orðin verulega aðkreppt og því verði að gefa gaum við fjárlagagerð í haust, enda ljóst að komið sé að þolmörkum í niðurskurði.

Katrín flutti munnlega skýrslu sína um málefni safna á þinginu í gær. Fyrst og síðast var tilefnið stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, sem birt var á dögunum, þar sem nokkuð óvægin gagnrýni var sett fram á því hvernig staðið hefur verið að málefnum Náttúruminjasafnsins, eins af þrem höfuðsöfnum Íslands, á undanförnum árum. Hún sagði þó að Ríkisendurskoðun hefði mátt taka meira tillit til þess við hvaða aðstæður ráðuneytið hafi búið undanfarin ár.

Katrín sagði að á aðeins tveimur árum hafi þurft að skera niður fé til safna um 1,2 milljarða og það aðeins síðan fjárlög voru dregin upp haustið 2009.

Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að lögin um safnið, frá árinu 2007, hafi verið gölluð. Það sé undirrót vandans og það uppfylli ekki lögbundnar skyldur sínar, eins og staðan er núna.

Katrín kallaði því eftir skoðunum þingheims um hvernig höggva megi á þann harða hnút sem málefni safnins eru í en það verður ekki síst rakið til tortryggni og togstreitu sem sé að finna innan stjórnkerfisins.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem hefur haldið málefnum safnsins á lofti á þinginu og hefur kallað eftir sérstakri umræðu um málið síðar, sagði að safnið hafi verið olnbogabarn í kerfinu og það þyrfti einfaldlega að klára málið, svo þing og þjóð sé sómi að. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og fyrrverandi menntamálaráðherra, fagnaði umræðunni og lýsti sig tilbúna til samstarfs til að koma safninu á fæturna og sagði að allir flokkar sem komið hafa að stjórn landsins þurfi að taka gagnrýni á vinnubrögð til sín.

Fulltrúar allra flokka tóku til máls í umræðunni og tóku vel í að setjast yfir málefni safna með opnum huga. Ekki var annað að skilja en menn vilji halda Náttúruminjasafninu sem sjálfstæðu höfuðsafni og hugmyndum um sameiningu við Náttúrufræðistofnun var hafnað.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×