Erlent

Gilani stefnt fyrir vanvirðingu

Yusuf Raza Gilani, forsætisráðherra Pakistans, hefur verið stefnt fyrir vanvirðingu við hæstarétt landsins.
Yusuf Raza Gilani, forsætisráðherra Pakistans, hefur verið stefnt fyrir vanvirðingu við hæstarétt landsins. Nordicphotos/AFP
Hæstiréttur í Pakistan hefur stefnt forsætisráðherra landsins, Yusuf Raza Gilani, fyrir vanvirðingu við réttinn. Hann hefur þráfaldlega neitað tilmælum réttarins um að taka upp á ný rannsókn á meintum auðgunarbrotum forseta landsins, Asif Ali Zardari. Gilani hefur verið boðaður fyrir dóminn á fimmtudag til að standa fyrir máli sínu.

Málið þykir undirstrika óvissuna sem ríkir á stjórnmálasviði landsins, en stjórnin á líka í deilum við yfirstjórn hersins. Telja margir að herinn standi á bak við þennan þrýsting dómara.

Þegar Zardari var kjörinn árið 2008 voru yfirvöld í Sviss að rannsaka mál þar sem hann var meðal annars grunaður um peningaþvætti. Rannsókninni var hins vegar skotið á frest þar sem forsetinn naut friðhelgi. Það hefur síðar orðið bitbein milli stjórnvalda og hæstaréttar sem segir friðhelgi leiðtoganna stangast á við stjórnarskrá.

Gilani og Zardari hafa að undanförnu verið ósparir við að gagnrýna afskipti hersins. Lét Gilani meðal annars þau orð falla að í deilum hers og stjórnvalda stæði valið milli „lýðræðis og einræðis“.

Stjórnin stóð af sér vantrauststillögu í gær, en óróanum er þó hvergi nærri lokið. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×