Erlent

Hundurinn Adolf kostaði eiganda sinn fangelsisdóm

Hitler hefði vafalaust verið hrifinn af hvuttanum.
Hitler hefði vafalaust verið hrifinn af hvuttanum.
Þýskur maður hefur verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir að kenna hundinum sínum að heilsa að hætti nasista þegar „Heil Hitler!" er kallað.

Hitler hefði vafalaust verið hrifinn af hvuttanum. Þeir eru ekki aðeins skoðanabræður heldur deila þeir einnig nafni og afmælisdegi.

Eigandi hundsins, Roland T, hefur ítrekað verið ávíttur af lögreglu fyrir að láta Adolf heiðra foringjann. Hann var á endanum dæmdur í fimm mánaða fangelsi og var Adolf komið á hundahótel.

Talskona hundahótelsins sagði Der Spiegel að Adolf verði brátt komið á nýtt heimili. „Hann er hraustur og hlýðinn. Hann á ekki eftir að vera hér lengi. Hann er nú þegar orðinn frægur og það hjálpar til."

Adolf hefur nú fengið nýtt nafn: „Adi"

Roland hefur lengi barist gegn banni á nasistahefðum í Þýskalandi. Árið 2003 komst hann á forsíður fréttablaða í landinu eftir að hann hóf herferð gegn banninu. Þá gekk hann í bolum merktum Hitler, kallaði „Heil Hitler!" og Adolf heilsaði um hæl.

Nasistakveðjan var bönnuð í Þýskalandi árið 1945. Síðan þá hafa margir gagnrýnt bannið. Þar á meðal eru andstæðingar nasista en það er bannað að bera hakakrossinn í landinu, þó svo að hann sé þakinn rauðri málningu í mótmælaskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×