Viðskipti innlent

Ríkið freistar þess að fá bætur frá olíufélögunum

Magnús Halldórsson skrifar
Aðalmeðferð í skaðabótamáli íslenska ríkisins gegn olíufélögunum fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Skaðabótakröfur ríkisins nema um 25 milljónum króna. Nú eru rúm ellefu ár frá því að Samkeppniseftirlitið greip til aðgerða gegn olíufélögunum með húsleitum, sem að lokum leiddi til þess að þau voru sektuð um 1,5 milljarð króna fyrir ólögmætt samráð.

Reykjavíkurborg vann mál í Hæstarétti gegn olíufélögunum, sem er að hluta líkt málunum sem eru fyrir dómstólum nú. Það byggði á því að olíufélögin hefðu haft með sér samráð fyrir útboð á vegum borgarinnar. Þá var olíufélögunum gert að greiða Reykjavíkurborg og Strætó bs. tæplega 80 milljónir króna samanlagt. Mál ríkisins gegn olíufélögunum byggir að hluta á sambærilegum atriðum, það er að samráð olíufélaganna fyrir útboð á vegum ríkisins hafi leitt til tjóns fyrir ríkið.

Í mars á þessu ári féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála um sektargreiðslur vegna ólögmæts samráðs, sem stóð yfir frá 1993 til 2001, var felld úr gildi vegna þess að ranglega var staðið að rannsókn málsins að mati dómara í málinu. Íslenska ríkinu var gert að greiða Ker, áður Olíufélaginu, um 500 milljónir, Skeljungi 450 milljónir og Olís 560 milljónir. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar, en óvíst er hvenær dómur fellur í málinu þar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×