Erlent

Miklar breytingar á heimasíðu Google

Valinn hópur tölvunotenda hefur fengið nýja útgáfu af heimasíðu Google leitarvélarinnar á netinu til notkunnar en hún fer síðan í loftið fyrir alla síðar í þessum mánuði.

Um er að ræða einar mestu breytingar á heimasíðu Google frá upphafi en google greindi frá tilkomu þeirra á síðasta ári.

Helsta breytingin er að í stað svörtu randarinnar efst á heimasíðunni kemur grár borði þar sem aðeins vörumerki Google er að finna. Með því að klikka á borðann eða draga músina yfir hann kom í ljós sjö möguleikar á þeirri þjónustu sem Google býður og með því að klikka áfram er hægt að sjá átta möguleika í viðbót.

Sérfræðingar sem skoðað hafa hina nýju heimasíðu segja að breytingum sé ætlað að auglýsa enn frekar þá þjónustu sem Google veitir án þess að yfirfylla síðuna af upplýsingum, að því er segir í frétt á BBC um málið.

Haft er eftir talsmanni Google að breytingunum á heimasíðunni sé ætlað að auðvelda almenningi notkun hennar. Hann segir jafnframt að breytingarnar séu þáttur í þeirri stefnu Google að reynt stöðugt að bæta sig og aðlagast nýjum tímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×