Erlent

Stal vöruflutningabíl fullum af vodka

Atvinnulaus Rússi stal vöruflutningabíl fullum af vodka og öðru áfengi í Rússlandi nýlega en lögreglan stöðvaði hann þó áður en hann náði að taka sjúss af einni flösku.

Atvikið átti sér stað í gær í borginni Liski, sem er um 500 kílómetrum suður af höfuðborginni, Moskvu. Vöruflutningabílstjórinn lagði trukknum fyrir framan áfengisverslun á meðan hann skrapp inn til að fylla út pappíra. Hann klikkaði þó á einu. Lyklarnir voru svissnum. Þegar hann kom út úr versluninni var bíllinn farinn.

Lögreglumenn fundu vöruflutningabílinn, og áfengið, á innan við klukkutíma og maðurinn, sem er 42 ára, var handtekinn. Hann sagði við lögreglumenn að honum langaði ekkert í þennan risastóra trukk. Eina sem hann hefði áhuga á væri vodkinn. Hann verður ákærður fyrir bílþjófnað og getur þurft að dúsa í fangelsi í fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×