Skoðun

Ósammála tillögum stjórnlagaráðs

Bergur Hauksson skrifar
Samkvæmt frumvarpi/tillögum stjórnlagaráðs er nýmæli um persónukjör. Stjórnlagaráð telur að auka beri aðkomu almennings að töku mikilvægra ákvarðana sem varða almannahag. Stjórnlagaráð telur einnig að líta beri á beint lýðræði sem viðbót við fulltrúalýðræði. Jafnframt telur stjórnlagaráð að aukin aðkoma almennings að ákvarðanatöku auki lýðræðislegan þroska, og stuðli að aukinni ábyrgð kjósenda. Allt framangreint kemur fram í skýringum með frumvarpi stjórnlagaráðs.

Þrátt fyrir að almenningur eigi að koma að mikilvægum ákvarðanatökum treystir stjórnlagaráð almenningi ekki til að kjósa framkvæmdarvald sem er í raun mótsögn við þann anda sem virðist hafa ríkt innan ráðsins. Ég er ósammála þessu vantrausti sem stjórnlagaráð hefur á almenningi og tel að rétt hefði verið að auka lýðræðið að þessu leyti og láta almenning kjósa framkvæmdarvaldið. Fleira í tillögunum/frumvarpinu tel ég að hefði mátt vera með öðrum hætti.

Stjórnlagaráðsfulltrúar ákváðu að vinna sameiginlega að þessu stóra máli. Það eitt og sér telst til tíðinda á Íslandi að stjórnlagaráðsfulltrúar komu sér saman um endanlegar tillögur/frumvarp. Telja verður að ekki séu allir fulltrúarnir sammála öllum þeim ákvæðum sem koma fram í tillögum/frumvarpi þeirra. Þeir samþykktu þó endanlegar tillögur.

Það sama ætla ég að gera þó ég sé ekki sammála öllu sem kemur fram í tillögum/frumvarpi stjórnlagaráðs. Ég hvet kjósendur einnig til þess. Vinnubrögð stjórnlagaráðs eru til fyrirmyndar og í tillögum/frumvarpi stjórnlagaráðs er margt til hins betra ef tekið er mið af núverandi ástandi, eins og t.d. bættur upplýsingaréttur sem núverandi ríkisstjórn lofaði þegnum þessa lands en hefur ekki staðið við.

Stjórnmálamenn hafa ekki getað komið sér saman um eðlilegar breytingar á stjórnarskránni þó þeir hafi haft tæp sjötíu ár til þess. Að vísu segja þeir það rangt að stjórnarskránni hafi ekki verið breytt vegna þess að mannréttindakaflanum hefur verið breytt. Einnig segja þeir að þeir hafi breytt atkvæði mínu þannig að nú sé það hálfgildi en áður hafi það verið fjórðungur miðað við suma aðra. Eru þessar breytingar eitthvað til að hreykja sér af?

Það er ólíklegt miðað við reynsluna að íslenskir stjórnmálamenn geti á næstu sjötíu árum það sem stjórnlagaráð gerði á nokkrum mánuðum, þ.e. komið með breytingar sem snúa að stjórnskipan og réttindum þegna þessa lands. Ég tel því að kjósendur eigi að nota þetta tækifæri sem nú gefst. Kannski býðst það ekki aftur fyrr en eftir sjötíu ár? Ef kjósendur nota ekki þetta tækifæri er líklegt að pólitíkusar túlki það á þann hátt að hér á landi sé allt eins og best verður á kosið og engu þurfi að breyta. Er það svo?




Skoðun

Sjá meira


×