Innlent

Kominn tími á Snilldarlausnir

BBI skrifar
Hin árvissa keppni, Snilldarlausnir Marel, er nú að hefjast í fjórða sinn. Snilldarlausnir er hugmyndasamkeppni milli framhaldsskólanema sem snýst um að búa til verðmæta vöru úr verðlausu drasli.

Fyrsta árið áttu keppendur að vinna með herðatré, árið eftir voru það pappakassar og loks dósir í fyrra. Nú verður brugðið út af vananum því keppendur geta ákveðið sjálfir hvaða hluti þeir nota. Það eina sem skiptir máli er virðisaukinn, að gera verðmæti úr drasli.

Til að taka þátt þurfa keppendur að senda inn myndband þar sem framleiðsluvaran er kynnt og útskýrð. Í kynningarmyndbandinu hér að ofan er farið yfir helstu atriði sem keppendur þurfa að þekkja. Myndbandið gerðu þeir Árni Steinn Viggósson og Haukur Kristinsson, nemendur í Versló.

Verðlaunin í ár eru ekki af lakara taginu, en þau eru í fjórum flokkum.

• Snilldarlausnin 2012: 75.000 kr. og farandgripur

• Frumlegasta hugmyndin: 50.000 kr.

• Líklegast til framleiðslu: 50.000 kr. og sérstök viðurkenning Samtaka atvinnulífsins

• Flottasta myndbandið: 50.000 kr.

Á heimasíðu Snilldarlausna má finna margskonar fróðleik en við fyrirspurnum tekur Stefán Þór Helgason í síma 659-1632 og á stefan@innovit.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×