Erlent

Segjast bjartsýn á viðræður

Íranskir mótmælendur tóku á móti nefnd alþjóðlega kjarnorkueftirlitsins á flugvellinum á mánudag.
nordicphotos/AFP
Íranskir mótmælendur tóku á móti nefnd alþjóðlega kjarnorkueftirlitsins á flugvellinum á mánudag. nordicphotos/AFP
Írönsk stjórnvöld hafa boðið sendifulltrúum Kjarnorkustofnunar Sameinuðu þjóðanna að vera lengur í landinu en þrjá daga, eins og upphaflega stóð til. Þetta er fyrsta heimsókn fulltrúa Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar til Írans frá því stofnunin sendi frá sér skýrslu í nóvember, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sumar kjarnorkutilraunir Írana geti vart haft annan tilgang en þann, að gera framleiðslu kjarnorkuvopna mögulega.

Evrópusambandið, Bandaríkin og fleiri ríki hafa samþykkt refsiaðgerðir gegn Írönum vegna kjarnorkuáforma þeirra og krafist þess að kjarnorkueftirlitið fái að ganga úr skugga um hvað Íranar eru að gera. Ali Akbar Salehi, utanríkisráðherra Írans, segist bjartsýnn á að viðræður við kjarnorkueftirlitið skili árangri.

Íranar hafa hins vegar hótað því að loka Hormús-sundi, sem er mikilvæg siglingaleið með olíu frá Persaflóa, telji þeir refsiaðgerðir vera orðnar of harkalegar. Sendinefndin frá kjarnorkueftirlitinu hefur ekkert látið uppi um störf sín í Íran síðan hún kom þangað á mánudag, en niðurstöður heimsóknarinnar ráða miklu um frekari viðbrögð annarra ríkja.

Ísraelar hafa leynt og ljóst hótað árásum á Íran til að eyðileggja kjarnorkuver og aðra starfsemi sem tengist kjarnorkuvinnslu.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×