Erlent

Ekki náðist samstaða í Brussel

Allsherjarverkfall hófst í Belgíu í gær til að mótmæla aðhaldsaðgerðum vegna skuldastöðu landsins. Fréttablaðið/ap
Allsherjarverkfall hófst í Belgíu í gær til að mótmæla aðhaldsaðgerðum vegna skuldastöðu landsins. Fréttablaðið/ap
Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins (ESB) hittust í Brussel í gær til að klára viðræður um nýjar reglur sem tryggja eiga aga við ríkisfjármálastjórn í evrulöndunum. Með reglunum vilja leiðtogarnir koma í veg fyrir að evruríki geti safnað óhóflegum skuldum á ný.

Seint í gærkvöldi bárust fregnir af því að Bretar og Tékkar hefðu neitað að samþykkja reglurnar. Talsmenn Breta höfðu áður lýst því yfir að þeir væru á móti þeim en afstaða Tékka kom á óvart. Er hún talin byggjast á því að Vaclav Klaus, forseti landsins, sé líklegur til að hafna að skrifa undir lög um reglurnar. Tékkar hafa enn ekki tekið upp evruna en hafa skuldbundið sig til upptöku hennar.

Þjóðverjar, stærstu lánveitendur evrusvæðisins, hafa þrýst á um samþykkt reglnanna. Gert er ráð fyrir að Evrópudómstóllinn fái vald til að fylgjast með framfylgni þeirra í evruríkjunum og sekta þau ríki sem brjóta þær.

Þá hófst allsherjarverkfall í Belgíu um miðjan dag í gær. Blásið var til verkfallsins til að mótmæla niðurskurði ríkisútgjalda og skattahækkunum sem gripið hefur verið til til að bregðast við erfiðri skuldastöðu landsins. Var dagurinn í gær valinn vegna leiðtogafundarins.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×