Erlent

Nær engu munaði að brak úr gervihnetti félli á Beijing

Nær engu munaði að stórir og þungir málmhlutir úr aflóga þýskum gervihnetti sem hrapaði til jarðar síðasta haust hefðu lent á Beijing höfuðborg Kína með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Fjallað er um málið í þýska tímaritinu Der Spiegel. Gervihnötturinn Rosat hafði verið á braut um jörðu í tuttugu ár þegar hann fór af braut sinni og hrapaði til jarðar. Rosat, sem var 2,5 tonn að þyngd sundraðist í fallinu og stórir og þungir hlutir úr honum féllu í Bengal flóann þann 23. október s.l. Talið er að 60% af gervihnettinum hafi náð niður á yfirborð jarðar.

Þýskir geimvísindamenn hafa reiknað út að ef Rosat hefði haldist á braut sinni í sjö mínútur í viðbót hefðu þessir stóru og þungu hlutir fallið á Bejing þar sem um 20 milljónir manna búa. Þetta hefði þýtt að djúpir gígar hefðu myndast í borginni og byggingar sprungið í loft upp. Manntjón hefði að öllum líkindum orðið gífurlegt við þessar aðstæður.

Hætt var að nota Rosat fyrir 13 árum síðan og hafði hann svifið verkefnalaus um jörðina allan þann tíma þar til hann féll til jarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×