Erlent

Söfnuðu 40 milljónum vegna framboðsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Barack Obama sækist eftir endurkjöri í embætti forseta Bandaríkjanna.
Barack Obama sækist eftir endurkjöri í embætti forseta Bandaríkjanna. mynd/ afp.
Stuðningsmenn Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, söfnuðu 40 milljónum bandaríkjadala á fjórða ársfjórðungi síðasta árs vegna væntanlegs framboðs hans til endurkjörs á þessu ári. Upphæðin sem safnað var nemur nærri fimm milljörðum íslenskra króna. Eignir framboðsins í lok ársins námu þá 82 milljónum dollara og skuldirnar námu þremur milljónum dollara. Þetta kemur fram í gögnum sem framboð hans skilaði til landskjörstjórnar í Bandaríkjunum í dag.

Önnur nefnd, sem sér um að safna fyrir framboð Obama og Demókrataflokkinn í heild, safnaði 24 milljónum á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Sú nefnd eyddi hins vegar 23 milljónum á sama tímabili og námu því tekjur þeirra nefndar umfram gjöld því einungis 1 milljón bandaríkjadala.

Stuðningsmenn Obama eru farnir að verja verulegum fjárhæðum vegna væntanlegs framboðs. Gríðarlegur kostnaður fellur til vegna launa starfsmanna framboðsins, tölvubúnaðar sem framboðið notar og fleiri þátta. Þá mun framboð Obama hafa birt lista yfir helstu styrktaraðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×