Erlent

Ný stjórn þarf að fæðast í dag

BBI skrifar
Umboð Antonis Samaras til stjórnarmyndurnar í Grikklandi rennur út í dag. Gert er ráð fyrir því að samsteypustjórn verði mynduð milli flokks Samaras, Nýs lýðræðis, og tveggja vinstri flokka, Pasok og Lýðræðislega vinstriflokksins. Saman myndu flokkarnir hafa 29 manna meirihluta á 300 manna þingi Grikklands.

Formaður Lýðræðislega vinstriflokksins hefur sagt að hann styðji samsteypustjórn þessara þriggja flokka og því búast menn við að tilkynnt verði um nýja stjórn í dag.

Nýtt lýðræði, flokkur Samaras vann 129 sæti á þinginu í kosningunum sem fram fóru á sunnudag. Næst á eftir kom flokkurinn Syriza með 71 sæti.

Takist Samaras ekki að mynda stjórn áður en frestur hans rennur út í dag fær leiðtogi Syriza, Alexis Tsipras, umboðið. Hann hefur hins vegar lýst því yfir að hann muni ekki einu sinni reyna að mynda stjórn.

Flokkur Samaras auk vinstriflokkanna tveggja sem verða að öllum líkindum í ríkisstjórninni vilja allir halda Grikklandi í evrusamstarfinu, öfugt við Syriza. Þeir vilja aftur á móti endurskoða samningana á neyðaraðstoð ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til landsins.

Umfjöllun BBC um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×