Erlent

Mál Kim Dotcom í uppnámi - leitarheimildin ógild

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Kim Dotcom, stofnandi Megaupload.
Kim Dotcom, stofnandi Megaupload. mynd/AFP
Dómstóll í Nýja-sjálandi hefur úrskurðað að leitarheimild sem lögreglan þar í landi notaði til að ráðast inn á heimili Kim Dotcom, stofnanda skráarskiptasíðunnar Megaupload, hafi verið ógild.

Dotcom var handtekinn í kjölfar húsleitarinnar en hún var gerð í umboði Alríkislögreglunnar í Bandaríkjunum.

Þá voru eignir hans gerðar upptækar en virði þeirra nemur milljónum dollara. Þar á meðal er yfir 20 lúxusbifreiðar, fjöldi tölva og listaverka.

Dotcom er nú laus gegn tryggingu en hann á yfir höfði sér þungan fangelsisdóm verði hann fundinn sekur. Hann er sakaður um að hafa ítrekað brotið á höfundarréttarlögum með því að deila efni í gegnum vefsíðuna Megaupload.

Ekki er vitað hvað verður um mál Dotcoms nú þegar leitarheimildin hefur verið lýst ógild.

Dotcom efnaðist gríðarlega á rekstri síðunnar. Samkvæmt FBI eru eignir hans metnar á um 175 milljónir dollara eða um 22 milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×